Viðskipti innlent

Már: Fleiru ábótavant hjá bönkunum en viðskiptalíkani

„Ekki er ólíklegt að yfirstandandi rannsókn á falli bankanna muni leiða í ljós að fleiru hafi verið ábótavant en viðskiptalíkani þeirra og áhættustýringu, svo sem gæðum eigna og stjórnháttum."

Þetta kemur fram í inngangi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra að ritinu Fjármálastöðugleiki 2009 sem Seðlabankinn hefur birt. Þar segir einnig: „Þá hafa áætlanir um endurheimtur úr þrotabúum bankanna vakið spurningar um gæði reikningsskila og upplýsinga kennitalna um fjárhagslegan styrk þeirra.

Það voru hins vegar erfiðleikar við endurfjármögnun erlendra eigna bankanna sem hleyptu hruninu af stað. Sökum stærðar bankanna var það síðan íslenskum stjórnvöldum ofviða að koma þeim til aðstoðar á úrslitastundu."

Í inngangi sínum fer Már Guðmundsson ítarlega yfir þróunina fyrir og eftir bankahrunið og ástæður þess hve illa fór fyrir Íslandi í fjármálakreppunni. Einnig ræðir hann um aðgerðir sem nauðsynlegar voru eftir hrunið, þar á meðal hvað greiðslumiðlunina við útlönd áhrærir.

Greiðslumiðlun gagnvart útlöndum varð hins vegar fyrir miklu hnjaski við fall bankanna, meðal annars vegna aðgerða breskra stjórnvalda. Með margvíslegum aðgerðum ...tókst þó að koma erlendri greiðslumiðlun aftur í gang og er hún nú að verulegu leyti komin í eðlilegt horf," segir Már.

Það kemur einnig fram í máli seðlabankastjóra að þótt endurreisn bankanna sé vel á veg komin er töluvert í land að hið nýja íslenska fjármálakerfi hafi tekið á sig þá mynd sem búið verður við til frambúðar.

„Bankarnir starfa enn í skjóli gjaldeyrishafta og hafa mjög takmarkaðan aðgang að erlendri fjármögnun. Nú þegar fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virðist í höfn er orðið tímabært að hefja afnám gjaldeyrishaftanna," segir Már.

„Eftir því sem endurreisn efnahags og fjármálalífs vindur fram og aðstæður batna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum má síðan binda vonir við að aðgangur Íslands að erlendum lánamörkuðum opnist á ný og að bankarnir geti siglt í kjölfarið."

Már segir að tengsl Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er meðal álitaefna sem skoða þarf vandlega hér á landi á næstunni. Rökin fyrir mun nánara samstarfi seðlabanka og fjármálaeftirlits tengjast þeim annmörkum sem áður voru nefndir varðandi regluverk og eftirlitsstarfsemi. Til að seðlabanki geti gegnt hlutverki sínu sem lánveitandi til þrautavara þarf hann á hverjum tíma að búa yfir upplýsingum til þess að leggja mat á hvort fjármálafyrir tæki í erfiðleikum stendur frammi fyrir eiginfjárvanda eða greiðsluþroti.

„Hann þarf líka að þekkja vel tiltæk veð. Þá er mikilvægt að hann geti áttað sig á stórum útlánaáhættum í kerfinu í heild og lagt mat á hættuna af smiti milli fjármálastofnana. Þetta þýðir að seðlabanki þarf að hafa aðgang að svipuðum upplýsingum og fjármálaeftirlit býr yfir. Komi síðan til þess að eiginfjárhlutföll verði með einhverju marki breytileg í ljósi útlána- og eignasveiflna, mun þurfa að tengja saman tæki fjármálaeftirlits og þjóðhagslega yfirsýn seðlabanka," segir Már.

Sjá viðhengi fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×