Viðskipti innlent

Magma setur skilyrði um skuldamál HS Orku

Í samkomulagi því sem Magma og Orkuveitan (OR) hafa gert um kaupin á hlut OR í HS Orku er meðal annars kveðið á um ásættanlega niðurstöðu hvað varðar samninga við aðra aðila um skuldamál HS Orku.

Þetta kemur fram á vefsíðunni Marketwire í Vancouver í Kanada. Þar segir einnig að samkomulagið sé háð ýmsum öðrum skilyrðum eins og samþykki kauphallarinnar í Toronto (TSX) og að aðrir hluthafar falli frá forkaupsréttindum sínum.

Í tilkynningu til TSX segir að Magma muni greiða 3,7 milljarða kr. við undirritun samningsins en að eftirstöðvarnar, 8,7 milljarðar kr., verði greiddar með svokölluðu kúluláni til sjö ára í dollurum og með 1,5% vöxtum eins og áður hefur komið fram. Reiknað er með að endanlega verði gengið frá málinu í lok þessa mánaðar.

Ross Beaty forstjóri Magma segir í tilkynningunni að þeir líti á þetta sem langtímafjárfestingu og muni vinna með öðrum hluthöfum við að hámarka virði fyrirtækisins. Með samkomulaginu fái Magma aðgang að verulegum jarðorkuverðmætum og mjög hæfu starfsfólki á þessu sviði.

Skuldir HS Orku hf. nema 29,2 milljörðum kr. samkvæmt efnahagsreikningi sem fylgdi sex mánaða uppgjöri félagsins, þar af eru skammtímaskuldir 5,8 milljarðar kr.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×