Viðskipti innlent

Forsendur efnahagsspáa brostnar á fyrsta degi

Greining Íslandsbanka bendir á að efnahagsspár bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir verulegum fjárfestingum tengdum orkufrekum iðnaði á næstu árum. Viðvarandi gjaldeyrishöft, breyttar áherslur í umhverfisráðuneyti og áform um aukna skattheimtu af orkunotkun er væntanlega ekki til þess fallið að auka líkur á að framangreind forsenda standist.

Greiningin fjallar um spárnar í Morgunkorni sínu. Þar segir að lítill munur er á þeim tveim efnahagsspám fyrir Ísland sem litu dagsins ljós í gær, en bæði fjármálaráðuneytið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birtu þá sínar spár.

Spár þeirra hljóða upp á um 8,4-8,5% samdrátt landsframleiðslu í ár og um 1,9-2,0% samdrátt til viðbótar á næsta ári. Í báðum spánum er reiknað með 8,6% atvinnuleysi í ár og að það fari upp í 10,5-10,6% á næsta ári. Þá er í báðum spánum reiknað með því að hratt dragi úr verðbólgu á næstunni og að hún verði 4,4-5,0% á næsta ári.

Miðað við þá miklu óvissu sem er í efnahagsmálum er hér um ótrúlega lítinn mun í spánum að ræða. Er það ekki nýtt að efnahagspá ráðuneytisins er keimlík spá AGS. Í apríl á þessu ári birti AGS spá um 10,2% samdrátt hér á landi í ár en maí birti ráðuneytið spá um að samdrátturinn yrði 10,6% í ár. Þá var AGS að spá verðbólgu í 10,6% í ár og atvinnuleysi í 9,7% en fjármálaráðuneytið verðbólgu í 10,2% og atvinnuleysinu í 9,6%.



Lítill munur á þessum spám ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem reikna má með því að þær byggi á viðlíka aðferðarfræði og forsendum. AGS á nokkuð náið samstarf við fjármálaráðuneytið í því uppbyggingarstarfi sem nú er og mótast spár beggja af þeirri meginforsendu að aðgerðaráætlun stjórnvalda og AGS sem sett var saman eftir hrun bankanna í lok árs í fyrra gangi upp í megindráttum.

Þannig hvíla spárnar á sömu forsendum um aðgerðir í opinberum fjármálum og peningamálum. Einnig eru þar sömu forsendur um stöðugleika krónunnar sem er eitt af megin áhersluatriðunum í áðurnefndri aðgerðaráætlun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×