Viðskipti innlent

Staða gjaldeyrismiðlunar

Við hrun bankakerfisins í október síðastliðnum lokaðist á öll viðskiptatengsl við erlenda banka sem búið var að byggja upp með góðum árangri á löngum tíma. Allt bankakerfið á Íslandi varð rúið trausti og erlend greiðslumiðlun lenti í uppnámi. Þá kom berlega í ljós hversu háðir við Íslendingar erum greiðslumiðlun við útlönd.

Þetta ferli sem fáir leiða hugann að meðan allt leikur í lyndi varð skyndilega á allra vörum. Við slíkar aðstæður er ekki óeðlilegt að skapist misskilningur og reyndar fór svo að alls kyns rangfærslur fengu hljómgrunn í fjölmiðlum og víðar. Jafnvel eftir að greiðslur fóru að ganga eðlilega hefur ýmsu verið haldið fram sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum.

Til dæmis hefur verið sagt að eina gáttin fyrir greiðslur til útlanda sé í gegnum JP Morgan-bankann. Jafnframt að þær greiðslur sem fari í gegnum ríkisbankana séu tryggðar af íslenska ríkinu. Báðar staðhæfingarnar eru alrangar.





JP Morgan á undan öðrum bönkum
Sigríður María Torfadóttir viðskiptastjóri hjá Fjárstýringu Íslandsbanka.
Með útsjónarsemi og fyrirhyggju tókst starfsmönnum Seðlabanka Íslands og viðskiptabankanna þriggja að tryggja flæði erlendra greiðslna til og frá landinu. Í raun má segja að Seðlabankinn hafi annast alla erlenda greiðslumiðlun á Íslandi síðustu þrjá mánuði liðins árs.

Það gefur augaleið að svona grundvallarbreytingum á jafn viðkvæmum viðskiptum fylgdu aukaverkanir. Afgreiðslutími erlendra greiðslna lengdist og að auki urðu alls kyns hnökrar á leiðinni sem oftast byggðust á misskilningi og tók á stundum langan tíma að vinna úr.

Í greiðslumiðlun sinni notast Seðlabankinn við ýmsa erlenda banka víða um heim en JP Morgan-bankinn er ekki einn þeirra. Hins vegar var JP Morgan langt á undan öðrum erlendum bönkum til að bjóða nýju bönkunum þjónustu sína, sem skýrir hvers vegna nýju bankarnir stofnuðu sína fyrstu reikninga hjá þeim.

Fleiri gjaldeyris-reikningar í fleiri löndum
Seðlabanki Íslands Síðustu þrjá mánuði síðasta árs annaðist Seðlabanki Íslands alla erlenda greiðslumiðlun hér á landi, eftir fall stóru bankanna þriggja í októberbyrjun. Markaðurinn/Pjetur
Frá áramótum hafa bæði Íslandsbanki og Kaupþing sinnt eigin greiðslumiðlun. Hún fer fram að hluta gegnum reikninga hjá JP Morgan Chase-bankanum en að auki hafa verið opnaðir reikningar hjá öðrum bönkum sem íslenskir bankar hafa átt gott samstarf við í áratugi.

Sem dæmi má nefna að Íslandsbanki er nú með reikninga hjá Danske Bank í Danmörku, SEB í Noregi, Svenska Handelsbanken í Svíþjóð, Royal Bank of Canada í Kanada og Commercial Bank of Australia í Ástralíu. Þá er í gangi vinna við að opna reikninga hjá fleiri bönkum.

Allir þessir reikningar voru opnaðir án þess að nokkrar ábyrgðir eða tryggingar væru lagðar fram og kostnaður bankanna við reikningana og greiðslur gegnum þá er sambærilegur við það sem gengur og gerist á markaðnum miðað við magn viðskipta. Miðlun greiðslna gegnum þessa reikninga hefur gengið vel og örugglega. Dæmi um að greiðslur sem fara þessa leið skili sér ekki á réttum tíma eru hlutfallslega álíka mörg og þau voru fyrir hrun, en þess ber að geta að íslenskir bankar hafa ætíð staðið framarlega að þessu leyti. Um miðjan janúar síðastliðinn opnaði Íslandsbanki aftur möguleikann fyrir fyrirtæki í viðskiptum, að senda erlendar greiðslur í gegnum netbankann.

Næstu skrefFram undan er mikið starf við að byggja upp íslenskt bankakerfi. Hluti þess starfs mun felast í því að koma í veg fyrir að aðstæður eins og sköpuðust í greiðslumiðlun í október komi upp aftur. Það starf verður unnið í góðri samvinnu Seðlabankans, viðskiptabankanna og sparisjóðanna, vonandi í friði fyrir röngum fullyrðingum á borð við þær sem nefndar voru og eru engum til hagsbóta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×