Bandaríski álrisinn Alcoa, sem m.a. á Fjarðarál, skilaði minna tapi á öðrum ársfjórðungi en væntingar voru um. Tapið nam 454 milljónum dollara eða um 59 milljörðum kr. Á sama tímabili í fyrra var hagnaður af rekstrinum hinsvegar 546 milljónir dollara.
Þessa uppgjörs er yfirleitt beðið með töluverðri eftirvæntingu á ári hverju því Alcoa er fyrst stórfyrirtækja vestan hafs sem birtir uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung. Staða Alcoa hefur þótt endurspegla stöðuna í bandaríska hagkerfinu.
Í frétt um uppgjörið á Reuters segir að hagræðingar og niðurskurður á kostnaði hjá Alcoa hafi leitt til þess að tapið reyndist töluvert minna en sérfræðingar á Wall Street höfðu gert ráð fyrir.
Klaus Kleinfeld forstjóri Alcoa segir að vísbendingar séu um að eftirspurn eftir áli muni aukast á næstunni en stöðugt hefur dregið úr henni á síðustu mánuðum. „Markaðurinn er samt áfram erfiður þótt finna megi vaxtartækifæri á honum," segir Kleinfeld.
Eftir að Alcoa birti uppgjör sitt hækkuðu hlutir í félaginu um 5%.