Þrír leikir fara fram í Iceland Express-deild karla í körfubolta þar sem taplausu liðin Njarðvík og Stjarnan verða til að mynda í eldlínunni. Njarðvík heimsækir Fjölni í Grafarvoginn en Njarðvíkingar hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa.
Fjölnismenn hafa aftur á móti tapað öllum þremur leikjum sínum en töpuðu naumlega gegn Grindvíkingum í síðasta heimaleik sínum þannig að Njarðvíkingar geta búist við erfiðum leik.
Stjarnan tekur á móti FSu í Ásgarði í Garðabæ en Stjörnumenn hafa byrjað tímabilið af krafti og unnið alla þrjá leiki sína til þessa á meðan FSu hefur tapað öllum þremur leikjum sínum.
Þá tekur Breiðablik á móti ÍR í Smáranum í Kópavogi en bæði liðin hafa unnið einn leik og tapað tveimur til þessa. Allir þrír leikir kvöldsins hefjast kl. 19.15.
Leikir kvöldsins:
Stjarnan-FSu
Fjölnir-Njarðvík
Breiðablik-ÍR