Viðskipti innlent

American Express kærir Kaupþing - vill stoppa auglýsingu

Kreditkort, útgefandi American Express á Íslandi, hefur kært Kaupþing og farið fram á að auglýsingar bankans þar sem haldið er fram röngum og villandi upplýsingum um punkta- og fríðindasöfnun á American Express kortum, verði stöðvaðar.

Í tilkynningu segir að tilefni kærunnar er heilsíðuauglýsing frá Kaupþing-banka þar sem e-kort Kaupþings eru borin saman við Icelandairkort American Express. Að mati forsvarsmanna American Express er auglýsingin uppfull af staðreyndavillum og villandi upplýsingum og hefur því farið fram á að Neytendastofa stöðvi frekari birtingar á auglýsingunni.

Í kærunni til Neytendastofu er bent á að súlur sem eru aðalefni auglýsinganna gefi algjörlega ranga mynd af hlutfalli fríðinda- og punktasöfnunnar milli þessara tveggja kreditkorta. Í raun snúi auglýsingarnar málinu alveg á haus, því punkta- og fríðindasöfnun sé ótvírætt mun meiri á korti American Express.

Farið hefur verið farið fram á að Neytendastofa nýti heimild til að stöðva birtingarnar á meðan á meðferð málsins stendur.

„Það er sorglegt að sjá svona slæleg vinnubrögð af hálfu Kaupþings og augljóst að samkeppnin frá okkur hefur eitthvað komið við kaunin á þeim," segir Viktor Ólason, framkvæmdastjóri Kreditkorta.

„Eitt ár er liðið frá því að við hófum útgáfu American Express korta á Íslandi og neytendur hafa tekið afar vel á móti okkur. Við höfum á þessum skamma tíma fengið yfir 15.000 nýja korthafa. Við teljum mikilvægt að tryggja að allar auglýsingar séu sem skýrastar og treystum okkur í allan samanburð í þeim efnum."

Viktor segir einnig að mikilvægast er að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir noti Visa, Mastercard eða American Express kreditkort. „Það er alvarlegt ef að stóru aðilarnir sem eru fyrir á markaðnum ætla að nýta aflsmuni sína og drekkja neytendum í auglýsingum með röngum staðhæfingum. Ég treysti að neytendastofa standi vörð um samkeppnina, enda við ramman reip að draga fyrir nýja aðila að koma inn á þennan markað þar sem fákeppni hefur verið ríkjandi svo lengi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×