Viðskipti innlent

Fulltrúi AGS kominn á skjön við peningastefnunefnd

Sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á land, Franek Rozwadowski, segir að forsendur séu ekki enn til staðar fyrir frekari lækkun stýrivaxta Seðlabankans andstætt því sem peningastefnunefnd hefur haldið fram.

Kom þetta fram í erindi sem hann flutti á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja í morgun. Yfirlýsing Franek er nokkuð á skjön við yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans frá 7. maí síðastliðnum.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Greining rifjar upp yfirlýsingu nefndarinnar þar sem segir að verði gengisþróun krónunnar og aðgerðir í fjármálum hins opinbera eins og nú er gert ráð fyrir væntir peningastefnunefndin þess að stýrivextir verði lækkaðir umtalsvert til viðbótar eftir fund nefndarinnar í júní, enda verði þá komin til framkvæmda fleiri skref í efnahagsáætluninni.

Eftir það gerir nefndin ráð fyrir hægari lækkun stýrivaxta. Virðist vera að AGS sé ekki alsendis sammála vaxtaákvörðunarnefndinni en í ljósi lánveitingar AGS til íslenskra stjórnvalda og efnahagsáætlunar sem lögð var til grundvallar þeim lánveitingum hefur sjóðurinn nokkurt vægi í peningastjórnun hér á landi, a.m.k. sem umsagnaraðili.

Viðbrögðin við ummælum Franek hafa verið nokkur á skuldabréfamarkaði þar sem kröfuhækkun hefur orðið í öllum helstu markflokkum frá því ummælin urðu opinber. Kröfuhækkunina í dag verður þó að skoða í ljósi þess hversu mikið krafan hefur lækkað undanfarnar vikur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×