Erlent

Froskmenn sitja um Michelle Obama í Kaupmannahöfn

Óli Tynes skrifar
Michelle Obama fundaði í morgun Með Jacques Rogge.
Michelle Obama fundaði í morgun Með Jacques Rogge. Mynd/AP

Gríðarleg öryggisgæsla er um Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna sem nú er í heimsókn í Kaupmannahöfn. Tilgangurinn með ferð hennar er að styðja umsókn Chicagoborgar um að halda Olympíuleikana árið 2016.

Einnig er von á Barack Obama forseta til dönsku höfuðborgarinnar í sama tilgangi. Þá er sjónvarpsdrottningin Opra Winfrey komin til Kaupmannahafnar og hefur hún vakið litlu minni athygli fjölmiðla en forsetafrúin.

Ákvörðun um Ólympíuleikana verður tekin á morgun. Brasilía, Spánn og Japan keppa við Chicago og fulltrúar þaðan eru einnig komnir til Hafnar.

Í Kaupmannahöfn er því varla hægt að þverfóta fyrir lögregluþjónum og öryggisvörðum. Það er til marks um hversu alvarlega Danir taka öryggisþáttinn að froskmannasveit danska sjóhersins var látin annast öryggisgæslu á sjó við Kalvebod bryggju þar sem Marriott hótelið stendur.

Þar var í morgun haldinn fundur Michelle Obama og Jacques Rogge forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar.

Froskmannasveit danska flotans er talin með harðskeyttari úrvalssveitum heims. Þess má geta að Friðrik krónprins gegndi herþjónustu í þeirri sveit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×