Viðskipti innlent

Pistill: Stjórnvöld virðast ekki ráða við verkefnið

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Það verður skýrara með hverjum deginum að stjórnvöld virðast hreinlega ekki ráða við hið risavaxna verkefni að endurreisa efnahagslíf landsins og koma einhverjum stöðugleika á það að nýju. Nærtækasta dæmið er að ekkert af höfuðatriðum í samstarfsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) frá því í nóvember s.l. er enn komið á koppinn, sjö mánuðum síðar.

Það liggur enn ekki fyrir áætlun um endurheimtur eigna gömlu bankanna. Þessu átti að vera lokið fyrir lok nóvember í fyrra.

Áætlun um endurskipulagningu ríkisfjármála til næstu ára er enn ekki lokið en hún átti að liggja fyrir í árslok í fyrra.

Það liggur enn ekki fyrir endurskoðun Fjármálaeftirlitsins á viðskiptaáætlunum nýju bankanna en henni átti að vera lokið fyrir 15. janúar s.l.

Endurfjármögnun bankakerfisins er enn ekki lokið en hún átti að liggja fyrir í lok febrúar s.l.

Endurskipulagning regluverks fjármálakerfisins er enn ekki lokið en átti að vera það í lok mars s.l.

Sem skýring á þessu er oft nefnt að fyrri ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum og kosningar voru haldnar í apríl s.l. og því hafi ekki gefist tími til að framkvæma alla þessa hluti. Það er sama og segja að mestan hluta fyrsta ársfjórðungs ársins hafi embættismannakerfi það sem vinna á grunnvinnuna hér bara sest niður og fitlað við sjálft sig þar til ljóst var hver myndi fara með völd eftir kosningarnar.

Svo virðist sem einhver örvænting sé að grípa um sig innan ríkisstjórnarinnar og meðal aðila vinnumarkaðarins því ekki verður betur séð en verið sé að ræða í alvöru um að fastsetja gengi krónunnar. Hver sem lokið hefur hagfræði 101 veit að slíkt er eitthvert mesta bull sem enn hefur litið dagsins ljós í efnahagsumræðunni.

Til að hægt sé að fastsetja gengið þarf Seðlabanki Íslands að eiga verulegan gjaldeyrisforða, svona ca. tífaldan á við það sem forðinn er í dag svo bankinn geti varið gengið. Og það myndi samt ekki duga nema í skamman tíma. Vilji menn sjá afleiðingar þess að halda genginu föstu er nærtækt að rifja upp hvernig fjárfestirinn George Soros snýtti Englandsbanka um rúmlega milljarð dollara árið 1992.

Þetta gerðist í framhaldi af þrjósku breskra stjórnvalda við að láta af fastgengisstefnu sinni. Að lokum gafst Englandsbanki upp og fleytti genginu en ekki fyrr en milljarðar punda á milljarða ofan höfðu fossað út úr breska hagkerfinu. Hægt er að sjá upplýsingar um þetta m.a. á Wikipedia.org.

Það er ljóst að stjórnvöld verða að taka mjög óvinsælar ákvarðanir til að koma fyrrgreindum atriðum í áætlun sinni og AGS til framkvæmda. Þar á meðal er einhver niðurskurður á velferðarkerfinu óhjákvæmilegur sem og skattahækkanir. Þetta hefur verið vitað frá upphafi en stjórnvöld hafa hummað þetta fram af sér hingað til.

Nú verður hinsvegar ekki beðið lengur og t.d. mun næsta ákvörðun peningastefnunefndar um stýrivexti mótast af því hvort áætlun stjórnvalda um framtíðarstefnuna liggi fyrir eða ekki. Svo ekki sé talað um framtíð samstarfsins við AGS sem svo aftur er grunnurinn að frekari lánveitingum vinveittra þjóða til okkar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×