Viðskipti innlent

Fjórðungur fyrirtækja með lán í vanskilum

Tæplega fjórðungur fyrirtækja er með lán í vanskilum hjá lánastofnunum, þar af eru 80% eftirstöðva í alvarlegum vanskilum. Ekki er að sjá að einhver tegund útlána sé fremur í vanskilum en önnur.

Búast hefði mátt við að vanskil gengisbundinna lána væru meiri en annarra lána sökum aukinnar greiðslubyrði í kjölfar gengislækkunar krónunnar. Af gengisbundnum lánum hafa 14% verið fryst. Í flestum tilvikum hefur verið sótt um frystingu höfuðstóls.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki 2009 sem Seðlabankinn birtir í dag. Seðlabankinn vinnur að mati á stöðu fyrirtækja út frá upplýsingum sem fengnar voru frá lánastofnunum um stöðu út- og innlána innlendra fyrirtækja í júnílok 2009. Miðast allar upplýsingar hér við stöðuna þá.

Um 70% útlána til fyrirtækja og eignarhaldsfélaga eru gengisbundin lán, sem er hlutfallslega meira en tekjur í erlendum gjaldmiðlum fyrirtækja. Því er ljóst að um töluverða óvarða gengisáhættu er að ræða. Þrátt fyrir hátt hlutfall gengisbundinna lána eru aðeins 44% fyrirtækja með slík lán.

Lánasafn rúmlega helmings fyrirtækja í landinu hefur því ekki beina tengingu við gengi krónunnar. Fimmtungur lána til fyrirtækja eru óverðtryggð lán en einungis um 10% verðtryggð.

Þriðjungur útlána til fyrirtækja eru kúlulán þar sem annaðhvort eru greiddir vextir á lánstímanum eða þeir greiddir í lokin. Vanskil vegna slíkra útlána koma því jafnan ekki fram fyrr en að lánstíma loknum.

Mörg slík lán eru á gjalddaga á næstu mánuðum og að því gefnu að miklar breytingar verði ekki á efnahagsumhverfinu gætu þær upplýsingar sem fyrir eru um vanskil vanmetið erfiðleika fyrirtækja.

Sjávarútvegsfyrirtæki eru með um 11,5% af heildarútlánum til fyrirtækja og er nær eingöngu um gengisbundin lán að ræða eða 95%. Rúmlega helmingur gengisbundinna lána er tekinn í lágvaxtagjaldmiðlum, svissneskum frönkum og japönskum jenum, á meðan 25% eru í evrum. Tæplega 40% útflutnings sjávarafurða eru hins vegar í evrum, fjórðungur í breskum pundum og rúmlega fimmtungur í Bandaríkjadölum.

Mjög lítill hluti útflutningstekna er í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Þetta misræmi í gjaldmiðlasamsetningu tekjuöflunar og útlána getur því valdið erfiðleikum fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja ef möguleikar til áhættuvarna eru ekki fyrir hendi.

Töluvert hátt hlutfall höfuðstóls gengisbundinna lána sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið fryst eða um 21% útistandandi lána. Kemur það á óvart í ljósi þess að tekjur þeirra eru mestmegnis í erlendum gjaldmiðlum.

Fyrir þessu gætu verið nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi getur verið að ofangreint misræmi milli gjaldmiðlaskiptingar útflutnings og lána hafi hækkað greiðslubyrði lána umfram hækkun tekna. Í öðru lagi getur verið að bankar séu viljugri til að veita sjávarútvegsfyrirtækjum frystingu en öðrum atvinnuvegum þar sem þeir meta þau fyrirtæki lífvænlegri en önnur.

Loks er mögulegt að fyrir tækin séu að leitast eftir að hámarka gjaldeyristekjur sínar með því að geyma greiðslur vegna útflutnings og frysta lánin í von um hagstæðari gengisþróun.

Útlán þjónustufyrirtækja nema um 26% af heildarútlánum fyrirtækja. Þar af vega fyrirtæki í fasteignaviðskiptum þyngst. Meirihluti útlána til þjónustugeirans eru gengisbundin eða 63%. Þó er einungis þriðjungur fyrirtækja í atvinnugreininni með slík lán.

Heildarútlán til atvinnugreinarinnar nema um 1.190 milljörðum kr. en árið 2008 nam útflutt þjónusta um 186 milljarði kr., sem nemur um 15% af lánunum. Því er ljóst að um verulega gengisáhættu er að ræða.

Ferðaþjónusta er um þriðjungur allrar útfluttrar þjónustu, þjónusta tengd samgöngum með 43% og afgangurinn er önnur þjónusta. Ekki er hægt að fá upplýsingar um nánari sundurliðun útflutningstekna eftir atvinnugreinum sem og gjaldmiðlasamsetningu þeirra.

Ferðaþjónusta er með 47 milljarða kr. útistandandi lán og eru 65% hennar gengisbundin lán. Tekjur af útfluttri ferðaþjónustu námu 54 milljörðum kr. árið 2008. Um 2/3 af gengisbundnum lánum ferðaþjónustu eru í svissneskum frönkum og japönskum jenum, en ólíklegt verður að teljast að tekjur þeirra séu í þeim gjaldmiðlum. Greiðslubyrði lána þeirra hafa því líklega hækkað umfram tekjurnar.

Lán til byggingastarfsemi og mannvirkjagerðar nema um 6% heildarútlána til fyrirtækja. Um 43% eru gengisbundin lán, 37% óverðtryggð lán og fimmtungur verðtryggð lán. Helmingur útlána fellur á gjalddaga á næstu fjórum árum, og þriðjungur á næstu tólf mánuðum.

Þessi stutti líftími lána gæti valdið erfiðleikum. Velta á íbúða- og atvinnuhúsnæðismarkaði er lítil sem engin. Því er líklegt að tekjur verði litlar og þörf á að endurfjármagna lánin. Vegna þess að eignaverð hefur lækkað kunna veð að vera ófullnægjandi.

Greiðsluerfiðleikar atvinnugreinarinnar koma bersýnilega í ljós þegar skoðuð eru vanskil hennar, en um 50% útistandandi lána eru í vanskilum og þar af er mikill meirihluti vanskila alvarleg eða 70%. Höfuðstóll útlána hefur verið frystur í 15% tilvika.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×