Viðskipti innlent

Velta í dagvöruverslun jókst um 1,1% milli ára

Velta í dagvöruverslun jókst um 1,1% á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð árið áður og um 22,7% á breytilegu verðlagi. Ekki hefur áður orðið raunaukning í veltu dagvöruverslunar á milli ára síðan um mitt síðasta ár.

Þetta kemur fram í samantekt hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að ástæðuna megi rekja til þess að í ár voru páskarnir í apríl en í fyrra voru þeir í mars. Ef veltuvísitala dagvöruverslunar er leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum varð samdráttur í veltu um 5,9% á milli ára.

Verð á dagvöru í apríl lækkaði um 0,9% frá mánuðinum á undan. Hins vegar var verð á dagvöru 21,4% hærra í apríl síðastliðnum miðað er við apríl í fyrra.

Sala á áfengi jókst um 6,2% í apríl miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 36,7% á breytilegu verðlagi. Ástæða aukinnar áfengissölu má að líkindum draga til páskahátíðarinnar í apríl líkt og aukningin í dagvöruverslun. Verð á áfengi hækkaði um 28,6% í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar.

Velta fataverslunar var 26% minni í apríl á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og minnkaði um 7,1% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum hækkaði um 25,5% á einu ári.

Heldur minni samdráttur var í skóverslun. Þannig minnkaði velta skóverslunar um 18,4% í apríl á föstu verðlagi en jókst um 1,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði um 24,8% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í apríl minnkaði velta í húsgagnaverslun um 56,1% á föstu verðlagi miðað við apríl í fyrra og um 43,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 28,3% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Sala á raftækjum í apríl dróst saman um 40,7% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og minnkaði um 16,5% á breytilegu verðlagi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×