Viðskipti innlent

Allt fór af veggjum Lehmans

áhugasamir skoða verkin Troðið var út úr dyrum á uppboði á verkum í eigu þrotabús fjárfestingarbankans Lehman Brothers um helgina.Markaðurinn/ap
áhugasamir skoða verkin Troðið var út úr dyrum á uppboði á verkum í eigu þrotabús fjárfestingarbankans Lehman Brothers um helgina.Markaðurinn/ap

Öll listaverk seldust á þéttsetnu uppboði úr þrotabúi bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers sem haldið var hjá uppboðshúsi Freeman‘s í Philadelphia-borg á sunnudag.

Bankinn fór í þrot um miðjan september í fyrra og hrinti fall hans fjármálaheiminum fram af bjargbrúninni, þar á meðal Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum sem voru ríkisvæddir um hálfum mánuði síðar.

Almennt var reiknað með að listaverkauppboðið, sem er það fyrsta af þremur, myndi skila í kringum einni milljón Bandaríkjadala, um 125 milljónum króna.

Bandaríska stórblaðið Wall Street Journal segir kreppuna ekki hafa hert meira en svo að listunnendum að flest verkanna 238 sem boðin voru upp fóru á talsvert hærra verði en reiknað var með. Eitt verkanna, mynd af hundrað dala seðli með gylltu laufblaði eftir bandaríska listamanninn Tony King, fór á tífalt hærra verði en búist var við. Á uppboðinu voru meðal annars verk eftir Roy Lichtenstein, gjarnan kenndan við popplistastefnuna, auk fleiri verka eftir þekkta nútímalistamenn.

Afrakstur uppboðsins, 1,34 milljónir dala, gengur upp í kröfur þrotabúsins. Það er þó dropi í hafið því skuldir bankans námu rúmum sex hundruð milljörðum dala þegar hann fór á hliðina.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×