Viðskipti innlent

FÍS vill aðildarviðræður við ESB án tafar

Stjórn Félags íslenskra stórkaupmanna (FÍS) sendi í gær bréf til allra alþingismanna, þar sem fjallað er um aðildarviðræður við ESB. Þar kemur fram að FÍS vill að stjórnvöld fari í aðildarviðræður við ESB án tafar.

Í bréfinu er lögð áhersla á að málið fái skýra efnislega meðferð og að afgreiðslu þess verði hraðað. Koma verður í veg fyrir að enn eina ferðina fari vikur og mánuðir í þras um skipan nefnda eða tæknilegar útfærslur sem er til þess eins fallið að tefja grundvallarmál með tilheyrandi tjóni fyrir almenning.

Í tilkynningu frá FÍS segir að mikilvægi þessa máls kallar á að flokkadrættir og persónupólitík verði lögð til hliðar og að þingmenn fylgi sannfæringu sinni af drengskap.

Í bréfinu er einnig lögð áhersla á að ekki er hægt að gefa sér niðurstöðu aðildarviðræðna í heild sinni. Þó sé mikilvægt að koma atvinnulífi landsins úr gíslingu ótrúverðugs gjaldmiðils, gjaldeyrishafta og vaxtastigs sem endurspeglar engan veginn innlent efnahagsástand.

Stjórn FÍS ítrekar ennfremur nauðsyn þess að hið opinbera gangi hratt fram í að aflétta því óvissuástandi sem ríkir í kringum atvinnurekstur í landinu með markvissum bráðaaðgerðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×