Viðskipti innlent

Óverðtryggðir langtímavextir ekki lægri síðan 2004

Ef frá er talinn fyrri hluti októbermánaðar síðastliðins, þegar flótti í öryggi réði lögum og lofum á skuldabréfamarkaði, hafa óverðtryggðir langtímavextir aðeins einu sinni verið eins lágir og nú frá tilkomu RIKB13 á vordögum 2002. Var það vorið 2004, rétt áður en Seðlabankinn hóf vaxtahækkunarferli sitt sem stóð allt fram á lokafjórðung síðasta árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag í umfjöllun greiningarinnar um skuldabréfamarkaðinn. Og þar segir að öfugt við það sem þá var er hins vegar útlit fyrir að skammtímavextir muni lækka töluvert á næstu misserum og því töluverðar líkur á að langtímavextir gætu lækkað frekar. . Óverðtryggðir langtímavextir á skuldabréfamarkaði eru nú á bilinu 7,1 - 7,2%.

Viðskipti á skuldabréfamarkaði voru með líflegra móti í gær og nam velta með markflokka tæplega 10 milljörðum kr. Nærri helmingur þessarar veltu var vegna viðskipta með lengsta ríkisbréfaflokkinn, RIKB19, og lækkaði krafa hans um 14 punkta í gær. Raunar lækkaði ávöxtunarkrafa allra markflokka, verðtryggðra sem óverðtryggðra og var kröfulækkunin á bilinu 8 - 63 punktar

Væntingar skuldabréfafjárfesta virðast raunar hafa færst í átt til lægri vaxta næsta kastið í kjölfar birtingar fjármálaráðuneytisins á þjóðhagsspá sinni í gærmorgun. Þar er því spáð að stýrivextir muni að meðaltali verða 4,3% á næsta ári og 4,8% árið 2011.

Ef spáin gengur eftir verða stýrivextir lægri á næstu misserum en þeir hafa nokkru sinni verið frá tilkomu þeirra árið 1994. Spá ráðuneytisins gerir einnig ráð fyrir verðbólgu undir 2,5% markmiði Seðlabanka þessi ár, en þrátt fyrir það virðist kaupáhugi á íbúðabréfum hafa verið talsverður í gær.

Það má setja í samhengi við eftirspurn í útboði Íbúðalánasjóðs á mánudag, en tilboð námu 12 milljörðum kr., fjórfaldri þeirri upphæð sem sjóðurinn tók tilboðum fyrir. Þeir sem þar gengu bónleiðir til búðar hafa því væntanlega leitað á eftirmarkað í staðinn til kaupa á íbúðabréfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×