Viðskipti innlent

Spá 9% samdrætti samanlagt árin 2009 og 2010

„Hagkerfið mun dragast verulega saman á árunum 2009-2010. Það bætir hinsvegar nokkuð úr skák að vöru- og þjónustuhalli hefur snúist í afgang sem mun taka mesta höggið af hagkerfinu hvað framleiðslu varðar. Greiningardeild spáir því „einungis" 9% samdrætti í landsframleiðslu samanlagt á árunum 2009-2010. Í framhaldi af því mun hinsvegar taka við fjárfestingadrifinn hagvöxtur á árunum 2011-2012."

Þetta segir í Markaðspunktum greiningar Nýja Kaupþings þar sem fjallað er um nýja hagspá greiningarinnar fram til ársins 2012.

Greining fer fyrst aðeins yfir forsöguna og í Markaðspunktum segir að í góðæri síðustu ára var eftirspurnin í hagkerfinu drifin áfram af auðveldu aðgengi að lánsfé, mikilli bjartsýni og sterku gengi. Í kjölfarið jukust skuldir heimila og fyrirtækja úr rúmlega tvöfaldri landsframleiðsla yfir í fimmfalda landsframleiðslu á tímabilinu 2004-2008.

Erfitt aðgengi að lánsfé, veikara gengi, hækkandi skuldir og þyngri greiðslubyrði hafa hinsvegar dregið úr bæði fjárfestingu og útgjöldum heimila og ríkis. Því verða þjóðarútgjöld í sögulegu lágmarki sem hlutfall af landsframleiðslu.

Að mati Greiningardeildar mun annar toppur í stóriðjufjárfestingu taka við á árunum 2011-2012. Stærðargráðan verður þó um þriðjungi minni að umfangi en þegar síðustu stóriðjuframkvæmdir stóðu sem hæst á árunum 2005-2007. Þrátt fyrir að orkutengdar framkvæmdir komist á skrið á spátímabilinu þá verður hlutdeild innlendrar eftirspurnar áfram í sögulegu lágmarki sem helgast af lítilli neyslu landsmanna.

 

Eins og vikið hefur verið hér að munu orkugeirinn og orkufrek starfsemi leggja mest til fjárfestingar á spátímabilinu, jafnvel þótt tafir á framkvæmdum séu fyrirsjáanlegar. Greiningardeild gerir ráð fyrir um 300 milljarða kr. fjárfestingu í orkufrekum iðnaði á árunum 2009-2012 (eða sem nemur 28% af heildarfjárfestingu á tímabilinu).

 

Í spánni er gert ráð fyrir a.m.k. eins árs töf á framkvæmdum tengdum álveri í Helguvík og Straumsvík (eða annarri sambærilegri fjárfestingu), sem helgast m.a. af erfiðum fjármögnunarskilyrðum auk þess sem nýir orku- og auðlindaskattar hafa þegar sett strik í reikninginn. Meginþungi framkvæmda mun því koma fram á árunum 2011-2013.

 

Viðræður hafa staðið yfir milli lífeyrissjóða og stjórnvalda um aðkomu þeirra fyrrnefndu að fjármögnun verkefna fyrir allt að 100 milljörðum kr. á næstu árum. Greiningin gerir ráð fyrir að helmingur þeirrar upphæðar verði til fjárfestinga tengdri stóriðju en að hinn helmingurinn verði til fjárfestinga í öðrum atvinnugreinum.

 

Vægi fjárfestingar í landsframleiðslu verður mjög lágt í sögulegu samhengi næstu árin. Nokkurn tíma mun taka fyrir þetta mynstur að snúa við:

Takmarkað svigrúm er fyrir hið opinbera að ráðast í frekari fjárfestingar á næstu árum.

Fjárfesting atvinnuvega annarra en stóriðju verður að öllum líkindum nokkuð hófleg, a.m.k. fram til ársins 2011.

Á móti kemur hins vegar að lífeyrissjóðir munu að líkindum fjárfesta fyrir um 100 milljarða kr. samtals á næstu fjórum árum.

 

Allt útlit er fyrir að offramboð á íbúðum verði á næstu árum og því ólíklegt að ráðist verði í frekari íbúðafjárfestingar á meðan svo er. Greiningin telur að íbúðafjárfesting verði í sögulegu lágmarki út spátímabilið eða í kringum 2% af landsframleiðslu á ári.

 

Óvissan í spánni er meiri í þá átt að fjárfestingarverkefni verði síðar á ferðinni frekar en fyrr. Seinki t.d. fyrirferðarmiklum stóriðjuverkefnum meira en grunnspáin gerir ráð fyrir mun hagvöxtur taka við sér síðar en spáin gerir ráð fyrir. Ræðst það bæði af beinum áhrifum fjárfestingar á hagvöxt og einnig jákvæðum heildaráhrifum fjárfestingar á hagkerfið sem ýta undir hagvöxt (t.d. minnkun atvinnuleysis og vöxtur einkaneyslu).

 

Þeir þættir sem gætu valdið frekari seinkun fjárfestingarverkefna eru einna helst að erfið fjármögnunarskilyrði gætu seinkað því að fjármagn fáist til framkvæmda. Annar þáttur er pólitísk óvissa. Ekki er útséð um áhrif orku-, auðlinda- og umhverfisskatta á fjárfestingu í orkutengdum iðnaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×