Viðskipti innlent

Vaxtagreiðslur ríkissjóðs aukast um 167% á árinu

Vaxtagreiðslur ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins hafa aukist um 167% miðað við sama tímabil í fyrra. Þær fóru úr 13,7 milljörðum kr. í fyrra og upp í 36,6 milljarða í ár.

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2009 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu er handbært fé frá rekstri neikvætt um tæpa 89 milljarða kr., sem er 107,9 milljörðum króna lakari útkoma heldur en á sama tímabili í fyrra. Tekjur reyndust 25,3 milljörðum minni en í fyrra á meðan gjöldin jukust um 65,8 milljarða kr.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins voru rúmlega 307 milljarða kr. sem er 25 milljarða kr. minna en á sama tíma árið 2008. Áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir að tekjur tímabilsins yrðu tæpir 310 milljarða kr. og er frávikið því neikvætt um 2,5 milljarða kr. sem er hið minnsta frá ársbyrjun.

Hér valda þó miklu þær breytingar sem gerðar voru á innheimtu fjármagnstekjuskatts á árinu og leiddu til mikils tekjuinnstreymis á fyrsta eindaganum í ágústmánuði, en ekki var gert ráð fyrir þessum breytingum í áætlun fjárlaga. Innheimtan hefur allt frá ársbyrjun verið minni en reiknað var með í áætlun fjárlaga, en eftir eindaga fjármagnstekjuskattsins í byrjun ágúst hefur frávikið þó verið lítið.

Þess bera að gæta að hinar breyttu reglur, sem fela í sér ársfjórðungsleg skil á staðgreiðsluskyldum fjármagnstekjuskatti einstaklinga í stað árlegra áður, leiða til þess að innheimtutölur á síðari hluta árs 2009 eru ekki samanburðarhæfar við tölur fyrri ára nema leiðrétt sé fyrir áhrifum þessarar breytingar.

Greidd gjöld námu rúmum 384 milljörðum kr. og jukust um 66 milljarða kr. frá fyrra ári, eða 21%. Milli ára hækka vaxtagjöld ríkissjóðs mest eða um 23 milljarða kr. Þá jukust útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála um rúman 21 milljarða kr. sem skýrist að mestu af 17,1 milljarða kr. aukningu útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs, 3,3 milljarða kr. aukningu vaxtabóta og 1,1 milljarðs kr. aukningu á barnabótum.

Útgjöld til heilbrigðismála aukast um 7,5 milljarða kr. milli ára þar sem útgjöld til Sjúkratrygginga skýra 6,8 milljarða kr. Óregluleg útgjöld aukast um 2,7 milljarða kr. milli ára sem skýrist að mestu af greiddum fjármagnstekjuskatti ríkissjóðs sem eykst um 1,8 milljarð kr.

Útgjöld til menntamála aukast um 2,2 miljarða kr. milli ára, þar af útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 1,1 milljarð kr. og til framhaldsskóla um 1,4 milljarð kr. Útgjöld til löggæslu, réttargæslu og öryggismála jukust um 1,8 milljarð kr. milli ára þar sem fjárfesting Landhelgissjóðs í varðskipi og flugvél skýrir hækkunina að langstærstu leyti.

Útgjöld til menningar-, íþrótta- og trúmála aukast um 1,4 milljarð kr. milli ára þar sem útgjöld til RÚV skýra 483 milljónir kr. og viðhald og stofnkostnaður menningastofnana 411 milljónir kr. Útgjöld til efnahagsog atvinnumála aukast um 1,3 milljarð kr. og skýrir Hafnarbótasjóður um 0,8 milljarð kr. Þá aukast útgjöld til Ábyrgðasjóðs launa um 752 milljónir á milli ára. Breytingar í öðrum málaflokkum eru svo minni en þau sem áður hafa verið talin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×