Viðskipti innlent

Rannsókn á meintri markaðsmisnotkun Imons langt komin

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Magnús Ármann.
Magnús Ármann.

Rannsókn sérstaks sakskóknara á meintri markaðsmisnotkun Imons, félags í eigu Magnúsar Ármanns, er einna lengst komin af þeim þrjátíu málum sem eru til meðferðar hjá embættinu.

Imon, félag í eigu Magnúsar Ármanns, keypti rúmlega 4 prósenta hlut í Landsbankanum fyrir tæpa níu milljarða þremur dögum áður en Fjármálaeftirlitið tók bankann yfir. Imon fjármagnaði kaupin að fullu með láni frá Landsbankanum og var eina veðið í hlutabréfunum sjálfum sem urðu verðlaus þegar bankinn var tekinn yfir.

Skömmu eftir fall bankans fór málið inn á borð Fjármálaeftirlitsins. Það var síðan sent til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara en grunur leikur á að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða en slíkt getur varðað sex ára fangelsi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur gagna verið leitað á heimili Magnúsar auk þess sem hann og starfsmenn Landsbankans sem sáu um þessi viðskipti hafa verið yfirheyrðir.

Þá herma heimildir fréttastofu að málið sé einna lengst komið af þeim 30 málum sem eru til rannsóknar hjá embættinu og það sé það alvarlegt að ekki verði komist hjá því að ákæra í því. Málið gæti því orðið það fyrsta sem Björn L. Bergsson, ríkissaksóknari gagnvart embætti sérstaks sakskóknara, fær til ákærumeðferðar.

Ekki náðist í Magnús Ármann í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×