Viðskipti innlent

Peningamagn í umferð hefur aukist um 100 milljarða

Peningamagn í umferð hefur aukist um rúmlega 100 milljarða frá bankahruninu í haust.

Samkvæmt hagtölum Seðlabankans var peningamagn í umferð í september í fyrra tæplega 440 milljarðar kr. Í október þegar bankarnir hrundu jókst þetta peningamagn upp í tæplega 585 milljarða kr. eða um 145 milljarða kr. þegar landsmenn tóku út innistæður sínar í bönkunum í stríðum straumum.

Þetta hefur lítið minnkað síðan. Með peningamagn í umferð er átt við seðla, mynt og óbundnar innistæður í bönkum sem eru í notkun á landinu hverju sinni.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins hefur peningamagn í umferð í hverjum mánuði sveiflast á milli rúmlega 543 milljarða kr. og upp í tæpa 562 milljarða kr. í mars s.l. Mismunurinn á mars og október á s.l. ári nemur því 122 milljörðum kr.

Þar sem kaup fólks á dýrum hlutum eins og íbúðum og bílum hefur hrunið á fyrstu mánuðum ársins sem og verslun með dýrari vörur eins og heimilistæki eru allar líkur á að Íslendingar geymi þetta fé „undir koddanum" eða þá í t.d. bankahólfum og öðrum stöðum.

Þá er athyglisvert að samkvæmt hagtölunum hefur peningamagn í umferð aukist gífurlega frá árinu 2006 en í desember það ár var peningamagn í umferð rúmlega 211 milljarðar kr. Í apríl í fyrra var sú tala orðin tvöföld eða um 420 milljarða kr.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.