Viðskipti innlent

Forstjóri FME: Bara klúður hjá yfirlögfræðingnum

Gunnar Þ. Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að um mannleg mistök eða klúður hafi verið að ræða þegar tilkynnt var um sölu á 2,6 prósenta hlut gamla Landsbankans í Byr til Reykjavík Invest. Endurskoðandi þess félags er Lárus Finnbogason formaður skilanefndar gamla Landsbankans. Það var yfirlögfræðingur skilanefndarinnar sem tilkynnti um söluna án þess að skilanefndin væri búin að gefa samþykki sitt.

„Það var mikill hasar í kringum þennan fund," segir Gunnar. „Þess vegna voru blaðamenn með margar samsæriskenningar. Við höfum rannsakað málið og við höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta voru mistök starfsmanns," segir hann og bætir við að raunar hafi verið um yfirlögfræðing skilanefndar gamla Landsbankans að ræða.

Gunnar segir að ef eitthvað annað kemur í ljós þá muni FME rannsaka það. „Við erum ekki að reyna fela neitt. Það er alls ekki neitt slíkt." Forstjórinn segir að viðkvæmir tímar séu uppi og að hann hafi skilning á því að fólk haldi að það sé eitthvað óhreint í pokahorninu. En eftir því sem við komust næst er ekkert slíkt í gangi. Klúður, en bara mistök."

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd gamla Landsbankans, er málinu lokið af þeirra hálfu. Þess verður ekki krafist að yfirlögfræðingurinn segi af sér.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×