Viðskipti innlent

Efnahagsreikningur Kaupþings minni en áætlað

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Ekki þykir nægilega skýrt hvernig skipta eigi erlendri og innlendri starfsemi milli gömlu og nýju bankanna.
Ekki þykir nægilega skýrt hvernig skipta eigi erlendri og innlendri starfsemi milli gömlu og nýju bankanna.

Fjármálaeftirlitið skoðar nú hvort að tug milljarða lán eigi að vera eign gamla eða nýja Kaupþings. Verði lánin skilin eftir í gamla bankanum minnkar efnahagsreikningur bankans töluvert.

Vinnu við efnahagsreikninga Íslandsbanka og Landsbankans er lokið en enn er unnið að efnahagsreikningi Kaupþings. Ekki þykir nægilega skýrt hvernig skipta eigi erlendri og innlendri starfsemi milli gömlu og nýju bankanna.

Hvað eigi t.a.m. að gera við erlend eignarhaldsfélög sem eiga innlendar eignir og þau fjölmörgu félög sem eiga bæði innlendar og erlendar eignir. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Fjármálaeftirlitið enn ekki samþykkt að lánaflokkar um 10 fyrirtækja hafi verið settir á efnahagsreikning gamla Kaupþings.

Skilanefndin hafði tekið ákvörðun um málið en búist er við að svar berist frá Fjármálaeftirlitinu í þessari viku. Lánaflokkarnir sem um ræðir nema tugum milljarða og er því ljóst að ef Fjármálaeftirlitið samþykkir þetta verður efnahagsreikningur nýja bankans mun minni en áður var áætlað en í skýrslu alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá síðasta hausti var gert ráð fyrir að hann yrði í kringum 700 milljarðar.

Minni efnahagsreikningi fylgja kostir og gallar. T.a.m. þyrfti ríkið að leggja fram minna eigið fé en á móti kemur að bankinn verður af tekjum af lánunum en þau eru samkvæmt heimildum fréttastofu flest í skilum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×