Viðskipti innlent

Stund hægfara stýrivaxtalækkunar runnin upp

skuggabankastjórnin ræðir málin Seðlabankinn á að hefja hægfara stýrivaxtalækkunarferli, að mati skuggabankastjórnar Markaðarins. Bankastjórnin telur mjög jákvætt að kröfuhafar taki ráðandi hlut í bönkunum enda muni þeir geta rekið þá vel. Skráning þeirra á markað er hyggileg en við það þurfa bankarnir að lúta kvöðum regluverksins, opna hluthafaskrána og tilkynna um hreyfingar á eignarhlutum í bönkunum. Markaðurinn/Anton
skuggabankastjórnin ræðir málin Seðlabankinn á að hefja hægfara stýrivaxtalækkunarferli, að mati skuggabankastjórnar Markaðarins. Bankastjórnin telur mjög jákvætt að kröfuhafar taki ráðandi hlut í bönkunum enda muni þeir geta rekið þá vel. Skráning þeirra á markað er hyggileg en við það þurfa bankarnir að lúta kvöðum regluverksins, opna hluthafaskrána og tilkynna um hreyfingar á eignarhlutum í bönkunum. Markaðurinn/Anton

Eftir tiltölulega rólegt sumar – það fyrsta eftir hrunið fyrir ári – hrökk íslenskt efnahagslíf loks í annan gír í síðustu viku. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun landsins og Seðlabankinn steig fyrstu skrefin í átt til afnáms gjaldeyrishafta um helgina. Þá bíður ein stærsta skuldbinding þjóðarbúsins, Ice-­save-málið, við þröskuld Alþingis.

Fá mál jafnast á við Icesave-deiluna sem legið hefur sem mara yfir þjóðinni það sem af er ári. Þrátt fyrir gríðarlega umfjöllun og ítarlegar vangaveltur um málið er langt í frá að öllum spurningum um skuldbindinguna hafi verið svarað.

Þegar við setjumst niður í viku­byrjun hafði AGS frestað útgáfu skýrslu um endurskoðun á efnahagsáætlun sinni um Ísland án skýringa.

Endalausar tafirÞeir Ingólfur, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, Ólafur, sem er lektor við Háskólann í Reykjavík, og Þórður, forstjóri Kauphallarinnar, segja menn orðna langþreytta á endalausum töfum á málum tengdum AGS. Þrátt fyrir að seint gangi hafi verið rétt að leita til hans á sínum tíma. Það þýði þó ekki að Íslendingar verði að fylgja stefnu hans gagnrýnislaust. Stjórnvöld verði að standa í fæturna gagnvart honum. Líta beri á hann líkt og hverja aðra stjórn. „Ég tel sjóðinn þurfa að gæta að trúverðugleika sínum,“ segir Ólafur, sem sjálfur vann hjá AGS í tvígang. Hann vísar til þess að Bretar og Hollendingar hafi vísvitandi tafið fyrir lánaafgreiðslunni. „Menn geta sagt hvað þeir vilja um málaflutning Bjarna Benediktssonar á þingi Norðurlandaráðs um helgina. En hann dró upp úr þeim játningu,“ segir hann.

Ingólfur bætir við að AGS hefði fremur átt að hjálpa þjóðinni en að sækja kröfuna fyrir hönd Breta og Hollendinga. „Það er svolítið svínslegt, finnst mér,“ segir hann.

Undir það taka hinir. Eigum ekkert valFleiri landsmenn eru nú andsnúnir AGS hér á landi en áður, samkvæmt könnun Fréttablaðsins fyrir hálfum mánuði. Af þeim sem þátt tóku vildu 58 prósent segja upp samningum við sjóðinn. Afgangurinn var andvígur uppsögn hans.

Þórður segir þjóðina ekki eiga annarra kosta völ en að halda samninga við sjóðinn. „Við gátum hugsanlega endurskoðað samkomulagið í september. En nú þegar þeir eru komnir þetta langt þá er erfitt að gera það. Hvað þá að hætta samstarfinu. Það myndi setja allt í uppnám. Við þyrftum að byrja upp á nýtt,“ segir hann.

„Það er útilokað, alveg út úr kortinu,“ bætir Ólafur við. „Mér finnst sömuleiðis skipta máli, að nú þegar AGS hefur pínt okkur til að taka þessi lán með þessum vaxtagreiðslum frá fyrsta degi og falla ekki undir fyrirvara Alþingis, að hann sýni fram á það hvernig við eigum að ráða við þetta. Nú eru stærðirnar orðnar mun meiri en þeir gerðu ráð fyrir. Því finnst mér hver dagur skipta máli,” segir hann.

Ingólfur bætir við að lánafyrirgreiðsla AGS og greiðslur frá hinum Norðurlöndunum skili sér ekki nema með samstarfi. Annað komi ekki til greina.

„Það er líka nauðsynlegt fyrir almenning og fyrirtæki landsins að fá efnahagsstefnu. Hún er fyrst til nú, með fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Síðan er náttúrulega búið að framlengja kjarasamninga og komið fram fjárlagafrumvarp.

Þótt óvissa sé enn um nokkra liði þá er þetta allt saman ákveðinn rammi um það hvert skuli halda á næstu tveimur til þremur árum. Þetta þurfum við að fá,“ bendir Þórður á. EndurreisninKröfuhafar Glitnis ákváðu á dögunum að taka 95 prósenta hlut í Íslandsbanka og útlit fyrir að kröfuhafar Kaupþings taki 87 prósent í Nýja Kaupþingi. Skuggabankastjórnin segir að þótt endurreisn bankanna hafi tekið tiltölulega langan tíma sé aðkoma erlendra aðila inn í bankageirann jákvætt skref. Ljóst sé að ríkið þurfi ekki að leggja þeim til tugi milljarða króna auk þess sem það kunni að flýta fyrir bættu sambandi við erlendar fjármálastofnanir.

Þá telur skuggabankastjórnin mikilvægt að bankarnir komist á réttan kjöl með tiltölulega hreinan efnahagsreikning. Skuldaaðlögun og aðrar aðgerðir séu því ávísun á tiltölulega heilbrigða banka þegar upp verður staðið.

„Það er samt óþægilegt að þeir komast í hendurnar á aðilum sem við vitum ekki hverjir eru,“ segir Ólafur. „Það er ekki fullnægjandi hér í vestrænu lýðræðisríki að ekki er vitað hverjir eiga bankakerfi landsmanna.“

„Mér finnst niðurstaðan mjög jákvæð“ segir Ingólfur og bætir við að þeir bjartsýnustu hafi spáð því að erlendir aðilar myndu vilja smávægilegan hlut og ríkið verða meirihlutaeigandi. „Þetta er einn af stærstu sigrunum síðustu mánuði, bæði fyrir bankakerfið og uppbyggingu þess.“

Ingólfur telur kröfuhafana, hverjir svo sem þeir kunni að verða, líklegri til að sníða bankana eftir vexti hagkerfisins. „Ég held að þessir aðilar verði miklu líklegri til að halda upp hagkvæmu bankakerfi en áður. Þetta eru þeir aðilar sem ég tel í raun þá sem munu fara í þann niðurskurð sem nauðsynlegur er á kerfinu. Þeir eru líka vísir til að vera lausir við þá pólitík sem ríkið gæti rekið sig á. Þetta verður erfitt, en nauðsynlegt,“ segir hann. Lækkun í spilunumSkuggabankastjórn Markaðarins mælir með hundrað punkta lækkun stýrivaxta á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans á morgun og fimmtíu punkta lækkun innlánsvaxta. Bankastjórnin vísar til jákvæðra vísbendinga í efnahagslífinu. Þá hafi lánsfjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur sem greint var frá í vikunni mikla þýðingu. Þar hafi verið send út skýr skilaboð til umheimsins um traust á endurreisn efnahagslífsins.

Þórður bendir á að sérstaklega hafi verið tekið fram í minnisblaði af síðasta vaxtafundi Peningastefnunefndar að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi mælt fyrir lækkun stýrivaxta. „Það er óvenjulegt að nafngreina fólk í nefndinni,“ bendir hann á. „Nú eru forsendur fyrir því að ganga enn lengra.“

Ólafur bendir sömuleiðis á að í ljósi þess að gjaldeyrishöftum sé beitt til að verja gengi krónunnar sé síður ástæða til að halda stýrivöxtum svo háum sem raun ber vitni. AGS hafi látið í veðri vaka eftir fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar að sjóðurinn hafi linast gagnvart háum stýrivöxtum. Því liggi fyrir að lækka megi vextina umtalsvert.

Ingólfur slær varnagla við þeim skilaboðum sem lækkun stýrivaxta kann að fela í sér. „Þetta ástand er tímabundið. Breyting stýrivaxta getur haft áhrif á markaðsvexti. Út frá því tel ég rétt að fara sér hægt,“ segir hann og ítrekar þó ákvörðun sína um eins prósentustigs lækkun.

Undir þetta taka hinir meðlimir skuggabankastjórnarinnar. Þeir draga þó í efa væntingar um hugsanlega styrkingu krónunnar. „Ég held að hún verði hægfara. Það er hollt fyrir efnahagslífið,“ segir Þórður. Vilja bæta við vaxtadegiÁ morgun er síðasti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans á árinu, samkvæmt dagskrá bankans. Ingólfur segir nauðsynlegt að bæta einum vaxtaákvörðunardegi við eftir aðra endurskoðun AGS á efnahagsáætlun Íslands í jólamánuðinum. Þá verði sömuleiðis búið að skera úr um hvað kröfuhafar Kaupþings ætli að gera auk þess sem mynd verður komin á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. „Það væri kannski rétt hjá Seðlabankanum að kynna þá vaxtalækkunarferil næstu mánuða, jafnvel fram á vor,“ bætir Ólafur við.

„Það ætti að gefa skýrt merki um að ákveðin tímamót séu nú. Að lækkun á morgun sé ekki einangrað tilvik,“ segir Þórður og bætir við nauðsyn þess að taka hófleg skref í einu næstu mánuði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×