Viðskipti innlent

Hertar reglur Seðlabankans gætu reynst skammgóður vermir

Líklegt er að skýringar á styrkingu krónu frá opnun markaða síðastliðinn fimmtudag sé að verulegu leyti að finna í breyttum reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál sem í rauninni fela í sér að gjaldeyrishöftin hafa verið hert. Þetta gæti þó reynst skammgóður vermir að áliti greiningar Íslandsbanka.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að frá fimmtudagsmorgni hefur krónan hækkað um tæp 2% gagnvart evru, en evran kostar 183 kr. á millibankamarkaði þegar þetta er ritað (kl.11:00). Er það sama gengi og var í upphafi nóvembermánaðar, en gengi króna lækkaði jafnt og þétt gagnvart evru framan af mánuði.

Þessar breytingar gætu stutt nokkuð við gengi krónu til skemmri tíma litið, þar sem meiri líkur eru á því en áður að gjaldeyristekjur skili sér til landsins og minni líkur á því að gjaldeyriskaup sem ekki eiga sér stoð í reglum Seðlabankans eigi sér stað. Hins vegar má velta fyrir sér hvaða skilaboð það sendir umheiminum að Seðlabankinn skuli ítrekað hafa þurft að herða á gjaldeyrishöftunum þrátt fyrir yfirlýsingar í aðgerðaráætlun AGS og stjórnvalda um að slíkt yrði ekki gert.

Það hjálpar heldur ekki hversu gjaldeyrisreglurnar eru flóknar og túlkun Seðlabankans sjálfs á þeim á tíðum óljós. Nægir þar að nefna 'túlkun' bankans á reglunum í maí sem var á þá lund að ekki mætti kaupa gjaldeyri fyrir gengishagnað af skuldabréfum, aðeins nokkrum vikum eftir að hið gagnstæða hafði verið fullyrt í Peningamálum bankans.

Það er ekki í öllu falli vel til þess fallið að laða erlenda fjárfesta að landinu þegar þeir þurfa að glíma við flókið og á köflum óljóst regluverk í gjaldeyrismálum, sem ofan í kaupið hefur ítrekað verið breytt undanfarið ár. Þessi síðasta herðing Seðlabankans á gjaldeyrishöftunum gæti því reynst skammgóður vermir, því þótt til skemmri tíma fáist með henni betri stjórn á gjaldeyrisflæði til og frá landinu er hún til þess fallin að minnka enn traust umheimsins á krónunni sem nothæfum gjaldmiðli í alþjóðlegum viðskiptum.

Í breytingunni, sem upphaflega var gerð í lok október en fylgt eftir með leiðbeiningum þann 9. nóvember síðastliðinn, felst að því er virðist meðal annars að svokallaðar aflandskrónur, þ.e. krónur á reikningum erlendra fjármálastofnana í hérlendum bönkum, má ekki lengur millifæra yfir á innlenda reikninga. Því geta þeir sem ganga vilja á svig við höftin ekki lengur keypt gjaldeyri innanlands, selt hann á aflandsmarkaði við mun hærra krónuverði en gildir hér innanlands, og nýtt þær krónur að nýju hér á landi.

Það sama gildir raunar um þá aðila sem haft hafa undanþágur frá banni við fjármagnshreyfingum milli landa. Markmið Seðlabankans með þessum breytingum er að setja undir hluta þess leka sem verið hefur á gjaldeyrishöftunum frá því þau voru innleidd fyrir ári síðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×