Innlent

Bréf Ingibjargar upplýsandi og gagnlegt

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til utanríkimálanefndar Alþingis sé bæði upplýsandi og gagnlegt. Það hrófli ekki við málflutningi ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu líkt og formaður Framsóknarflokksins hefur haldið fram.

Ingibjörg Sólrún dregur upp mynd af því sem gerðist bak við tjöldin í harðri milliríkjadeilu Íslendinga við Breta og Hollendinga í minnisblaði til utanríkismálanefndar. Hún segir að í stað þess að efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS sem undirrituð var í október í fyrra, fengi eðlilega afgreiðslu hafi ferlið verið teppt án viðvarana og hreinskiptni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að í minnisblaðinu tæti Ingibjörg Sólrún í sig grunnstoðirnar í málflutningi ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu.

Steingrímur sem var gestur í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun er ósammála túlkun Sigmundar. Þvert á móti hafi hann verið afar ánægður með bréfið. Það sama eigi við um minnisblað Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til utanríkismálanefndar. Steingrímur segir að bæði minnisblöð Geirs og Ingibjargar skýri samhengi málsins á haustdögum 2008 og bakgrunn svokallaðra Brussel viðmiða.

„En það er fjarri öllu lagi að það hrófli á nokkurn hátt við málflutningi eða framgöngu núverandi ríkisstjórnar," sagði Steingrímur.




Tengdar fréttir

Vonar að minnisblað Ingibjargar breyti hugarfari þingmanna

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, vonast til þess að minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, til utanríkismálanefndar Alþingis breyti hugarfari þingmanna og orðræðinu í Icesave málinu. Hún segir að minnisblaðið hafi komið sér á óvart.

Tætir í sig rök ríkisstjórnarinnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að Bretar hafi beitt sér gegn Íslandi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þar með misbeitt stöðu sinni innan AGS. Þetta kemur fram í minnisblaði til utanríkismálanefndar Alþingis. Formaður Framsóknarflokksins segir að í minnisblaðinu tæti hún í sig grunnstoðirnar í málflutningi ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×