Viðskipti innlent

Sjóðirnir ráði ekki miklu

Erlendir vogunarsjóðir verða hluti af breiðum hópi kröfuhafa bankanna í eignarhaldsfélagi og munu því ekki geta ráðskast með þá, að sögn Steingríms J. Sigfússonar.Fréttablaðið/stefán
Erlendir vogunarsjóðir verða hluti af breiðum hópi kröfuhafa bankanna í eignarhaldsfélagi og munu því ekki geta ráðskast með þá, að sögn Steingríms J. Sigfússonar.Fréttablaðið/stefán

 „Við vitum að erlendir vogunarsjóðir eiga nokkuð af kröfum bankanna. Sjóðirnir munu ekki eiga beina hluti í þeim heldur verða þeir hluti af breiðum hópi kröfuhafa í eignarhaldsfélagi sem kann að eignast hlut í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi. Þeir geta því ekkert ráðskast með þá,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Á meðal annarra kröfuhafa bankanna eru erlendir bankar og innlendir aðilar. Fjármálaeftirlitið mun fara yfir eigendahópinn áður en til skipta kemur.

Líkt og fram kom í Fréttablaðinu í gær eru vísbendingar um að sömu vogunarsjóðir og þátt áttu í falli bankanna í fyrravor komi til með að eignast Íslandsbanka og Nýja Kaupþing að mestu leyti.

Sjóðirnir þrengdu að bönkunum gömlu með kaupum á skuldatryggingum þeirra auk þess að skortselja hlutabréf fyrirtækja sem stærstu hluthafar bankanna áttu. Þar á meðal eru danska brugghúsið Royal Unibrew, norska fjármálafyrir­tækið Storebrand og finnska fyrirtækið Sampo.

Eftir fall bankanna tóku vogunarsjóðirnir að fjárfesta í skuldabréfum íslensku bankanna. Bréfin fengu þeir fyrir brot af upphaflegu kaupverði hjá evrópskum kröfuhöfum.

Líkt og áður hefur komið fram hefur virði skuldabréfa bankanna hækkað mikið frá í fyrra og er það í samræmi við væntingar um endurheimtur úr búum föllnu bankanna.

Sem dæmi mátti kaupa skuldabréf Kaupþings með 95 prósenta afslætti í

júní í sumar. Miðað við síðustu greiningu IFS Greiningar og Saga Capital má reikna með að kröfuhafar endurheimti 35 prósent af kröfum sínum. Virði skuldabréfanna helst í hendur við það og jafngildir rúmlega þrjú hundruð prósenta hækkun á fjórum mánuðum gangi allt eftir.

Þeir sem Fréttablaðið hefur rætt við vegna málsins telja ólíklegt að íslenska ríkið hafi verið í aðstöðu til að kaupa skuldabréfin í kjölfar hrunsins og hagnast á heimtum þeirra. Þá er óvíst að upphaflegir eigendur skuldabréfanna, að mestu erlendir bankar og fjármálafyrirtæki, hafi verið viljugir til að selja þau þá.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×