Viðskipti innlent

Hökt í að útflutningstekjur skili sér til landsins

Gengi krónunnar hefur lækkað þrátt fyrir hert gjaldeyrishöft, afgang á vöruskiptajöfnuði og kaup Seðlabankans á krónum fyrir erlendan gjaldeyri. Ástæður lækkunarinnar endurspegla útflæði gjaldeyris vegna vaxtagreiðsla til erlendra aðila, hökt í að útflutningstekjur skili sér til landsins að fullu og breytingu í greiðslufrestum innlendra aðila gagnvart erlendum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbankla. Þar segir að gengi krónunnar hefur hækkað í morgun um 0,42% en í síðustu viku lækkaði hún talsvert eða um 3,8%. Evran stendur nú í 177,4 krónum og dollarinn í 126,9 krónum.

Til samanburðar var evran á 169 krónur í upphafi árs og dollarinn á 121 krónur og er krónan því verðminni en þá var. Hún er búin að lækka mikið síðan hún náði sínu hæsta gildi á árinu um miðjan mars en þá var evran í tæplega 143 krónum og dollarinn í 112 krónum.

Lækkunina verður að skoða í ljósi þess að viðskiptin á markaðinum hafa verið afar lítil eða rétt tæplega 4 milljarðar kr. á mánuði það sem af er ári samanborið við um 618 milljarða kr. á mánuði í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×