Viðskipti innlent

Ríkissjóður þarf að greiða 71 milljarð þann 12. júní

Skammt er nú stórra högga á milli hjá ríkissjóði. Þann 12. júní næstkomandi er lokagjalddagi ríkisbréfaflokksins RIKB 09 0612. Flokkurinn er tæpir 71 milljarða kr. að stærð auk verðbréfalána til aðalmiðlara og að mestu leyti í eigu útlendinga samkvæmt markaðsupplýsingum Seðlabanka frá marslokum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að undir núverandi gjaldeyrishöftum hafa hinir erlendu eigendur enga kosti aðra en endurfjárfesta því fé sem ríkissjóður greiðir þeim í júní með einhverjum hætti hér innanlands.

Þegar hefur verið tilkynnt um ríkisbréfaútboð þann 9. júní næstkomandi og er því ætlað að koma til móts við ofangreindan gjalddaga, a.m.k. að hluta.

Þó ber að hafa í huga að ríkissjóður átti í apríllok ríflega 194 milljarða kr. á viðskiptareikningum í Seðlabankanum samkvæmt efnahagsyfirliti bankans og hefur ríkið því töluvert borð fyrir báru að greiða út höfuðstól og vexti af RIKB 09 í næsta mánuði án þess að samsvarandi útgáfa nýrra skuldabréfa komi til.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×