Viðskipti innlent

Ríkið orðið fasteignarisi

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Ríkið mun verða einn stærsti eigandi fasteigna á höfuðborgarsvæðinu eftir fall Saxbyggs. Eignirnar telja Smáralind, fasteignir Húsasmiðjunnar og 55 fasteignir víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.

Stjórnendur Saxbygg óskuðu eftir því á föstudag að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Saxbygg var í helmingseign Saxhóls, sem er kennt við Nóatúnsfjölskylduna, og BYGG, byggingarfélags Gunnars og Gylfa.

Nafni félagsins hefur verið breytt í Icarus ehf. Verðmætasta eign félagsins var 5,7% hlutur í Glitni en sá hlutur varð verðlaus við fall bankans og eftir það varð reksturinn þungur.

Saxbygg var einnig stærsti eigandi EIK properties en Íslandsbanki á einnig hlut í því félagi.

EIK var annað stærsta fasteignafélag hér á landi á eftir Landic Properties. Dótturfélög EIKar eiga t.a.m. ráðandi hlut í Smáralind, fasteignir Húsasmiðjunnar, fasteignir í Noregi og 55 fasteignir í miðborg Reykjavíkur, í póstnúmerunum 105 og 108 og víðar.

Fasteignirnar sem um ræðir eru t.d. Austurstræti 5, 7 og 17, Hafnarstræti 5,8 og 7 og Bankastræti 5.

Í tilkynningu frá Saxbygg kom fram að engar skuldir séu í félaginu aðrar en við viðskiptabanka.

Það má því gera ráð fyrir að ríkisbankarnar munu eignast hlut Saxbyggs í EIK properties og þar með verða meðal stærstu eigenda fasteigna í miðborg Reykjavíkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×