Skoðun

Opið bréf til heilbrigðisráðherra

Ragnhildur Jóhannsdóttir skrifar

Mikið hefur verið fundað í Heilbrigðisráðuneytinu um starfsemi Kragasjúkrahúsanna frá því haustið 2008. Til að gera langa sögu stutta ákvað nefnd á vegum Guðlaugs Þ. Þórðarsonar fyrrum heilbrigðisráðherra að loka skurðdeild St. Jósefsspítala Hafnarfirði, flytja átti hluta starfseminnar til Keflavíkur. Mikil mótmæli urðu við þeirri ákvörðun.

Í febrúar 2009 var haldinn fjölmennur fundur í Hafnarfirði þar sem margir tóku til máls, og varst þú ein af mörgum sem mótmæltu þessari ákvörðun.

Ögmundur Jónasson tók við sem heilbrigðisráðherra og ný von vaknaði. Ekkert gerðist nema skýr skilaboð um niðurskurð sem tekið var alvarlega af stjórn spítalans. Allir starfsmenn voru mjög meðvitaðir og tóku þátt í þeim niðurskurði. Þegar leið á sumarið var 12 skurðlæknum sagt upp aðstöðu á skurðdeildinni. Starfsemin minnkaði og líkja má ástandinu við hægt andlát.

Á haustmánuðum voru loksins kallaðir fagaðilar frá Kragasjúkrahúsunum til ráðgjafar á vinnufund í heilbrigðisráðuneytinu, undir stjórn Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítala - Háskólasjúkrahúss. Þar var okkur ætlað að koma með tillögur og ræða hlutverk Kragasjúkrahúsanna og samvinnu þeirra við LHÍ.

En annað sýndi sig, ákveðið hafði verið að loka skurðdeild St. Jósefsspítala um næstu áramót. Engar tillögur eða sérálit voru leyfðar á þessum vinnufundi, einungis að finna leið til að loka.

Það þarf vart að nefna hvaða áhrif þetta hefur haft á starfsfólk spítalans og skjólstæðinga okkar. Öll starfsemi er í uppnámi.

Ef af þessari lokun verður er það aðför að heilbrigði kvenna. Hjá okkur er mikil starfsemi í kvenlækningum ásamt öðrum sérgreinum. Í þessu bréfi viljum við leggja sérstaka áherslu á kvenlækningar. Til okkar koma meðal annars konur með ýmis vandamál í grindarbotni t.d. vegna þvagleka, legsigs og endaþarmssigs. Mikil fagleg þekking og áratuga reynsla fer forgörðum ef þessari starfsemi verður hætt. Hvað er dýrmætast í öllum fyrirtækjum? Þekkingin og reynslan.

Það er nokkuð ljóst að einungis hluti af þessum aðgerðum sem framkvæmdar eru á St. Jósefsspítala verður framkvæmdur á Lands spítala. LHÍ á að þjóna sínu hlutverki sem hátæknisjúkrahús fyrir alla landsmenn. Þá faglegu þekkingu sem til er á Kragasjúkrahúsunum á að nýta til að styrkja Landspítalann með því að sinna þeim skjólstæðingum sem ekki þurfa á hátækniþjónustu að halda.

Þann 10. okt. síðastliðinn átti að tilkynna endanlega ákvörðun um hlutverk Kragasjúkrahúsanna. Enn á ný er skipt um heilbrigðisráðherra, engin stefnumótun er sjáanleg og allir bíða í óvissu.

Það er merkilegt að þegar konur eru við völd, forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og forstjóri Landsspítala þá er vegið að heilbrigði kvenna. Er máttur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar kannski enn ríkjandi í þessari ákvörðun/tillögu? Hver er sparnaðurinn?

Við höfum óskað eftir fundi með þér og vonumst til að fá að hitta þig áður en ákvörðun er tekin um framtíð skurðdeildar St. Jósefsspítala Hafnarfirði.

Höfundur er deildarstjóri á St. Jósefsspítala.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×