Viðskipti innlent

Útlán ÍLS jukust um 14% milli mánaða

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) rúmlega 2,8 milljörðum króna í apríl. Þar af voru rúmir 1,9 milljarðar vegna almennra lána og rúmar 900 milljónir vegna leiguíbúðalána. Heildarútlán sjóðsins jukust því um tæplega 14% frá fyrra mánuði.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins. Þar segir að heildarútlán sjóðsins á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru rúmlega 12,2 milljarðar kr. sem er um 19% minni útlán en á sama tíma ársins 2008. Meðalútlán almennra lána voru um 10,6 milljónir króna í apríl sem er sambærilegt við fyrri mánuði ársins.

Þann 20. apríl birti Íbúðalánasjóður endurskoðaða áætlun um útgáfu, útboð íbúðabréfa og greiðslur Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2009. Sjóðurinn áætlar að gefa út íbúðabréf að nafnverði 33-38 milljarða króna, sem er lækkun um 3-6 milljarða frá fyrri tölum.

Áætlað er að ný útlán sjóðsins verði 41-47 milljarðar króna á þessu ári sem er lækkun um 8-10 milljarða frá fyrri áætlun. Töluverð óvissa ríkir um almenn útlán og útgáfu íbúðabréfa í ljósi breyttra aðstæðna á fjármála-og fasteignamarkaði. Nákvæmar tölur um áætluð útlán og útgáfu íbúðabréfa er því ekki hægt að gefa upp. Íbúðalánasjóður áætlar að greiða lánardrottnum sínum 59-65 milljarða króna á árinu en það er lækkun um 2 milljarða frá fyrri áætlun.

Heildarvelta íbúðabréfa í apríl nam rúmlega 43,9 milljörðum sem er 43% minni velta en í fyrri mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur 268,3 milljörðum það sem af er árinu 2009.

Umsóknum vegna greiðsluerfiðleika hefur fjölgað hjá Íbúðalánasjóði. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 bárust 942 umsóknir en heildarfjöldi allra umsókna vegna greiðsluvanda voru 1405 árið 2008 og 377 árið 2007. Úrræði vegna greiðsluvanda eru samningar, skuldbreyting vanskila, frestun á greiðslum, lenging lána og greiðslujöfnun. Frá því að sjóðurinn fór að bjóða upp á greiðslujöfnun fasteignaveðlána hafa verið afgreiddar 261 umsókn.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu um 6,4 milljörðum króna í apríl og voru afborganir vegna íbúðabréfa stærsti hluti þeirra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×