Erlent

Segja kenningar um höfuðkúpu Hitlers rugl

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Adolf Hitler.
Adolf Hitler. MYND/Hugo Jäger/Time & Life Pictures/Getty Images

Rússar mótmæla þeirri kenningu að Adolf Hitler hafi komist lífs af úr byrgi sínu vorið 1945 og að höfuðkúpa með skotgati sé ekki hans.

Embættismenn í Moskvu segjast ekkert kannast við að bandarískur vísindamaður hafi komið þangað til að rannsaka höfuðkúpu sem talin er vera af Adolf Hitler, leiðtoga nasista. Yfirlýsingin kemur í kjölfar þáttar á Discovery Channel þar sem sagt er frá athugunum vísindamannsins Nick Bellatoni sem á að hafa komist að þeirri niðurstöðu með erfðafræðirannsóknum að höfuðkúpan sé í raun úr konu og geti því alls ekki verið Hitlers.

Þar með sé stoðum rennt undir þá kenningu að Hitler hafi í raun aldrei framið sjálfsmorð í byrgi sínu þegar Berlín féll heldur komist undan óséður. Vladimir Kozlov, framkvæmdastjóri safnsins sem geymir höfuðkúpuna, segir að skrár safnsins sýni svo ekki verður um villst að enginn með nafninu Bellatoni hafi fengið aðgang að höfuðkúpunni síðustu fjögur ár.

Hann bætir því við að jafnvel þótt í ljós kæmi að hauskúpan væri af konu sannaði það ekki neitt þar sem Rússar hafi einnig hluta af kjálkabeini foringjans undir höndum. Beinin hafa verið í Rússlandi síðan sovéskir hermenn fundu brunnar líkamsleifar Hitlers, eða svo er talið, við innrásina í Berlín 1945. Sá kvittur komst þó á kreik að þar hafi staðgengill verið á ferð til að blekkja innrásarherinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×