Viðskipti innlent

Krónan styrkist um 40% gagnvart evru á aflandsmarkaði

Undanfarinn mánuð hefur króna styrkst um 40% gagnvart evru á aflandsmarkaði. Á sama tíma hefur gengi krónu gefið eftir um tæp 3% gagnvart evru á innlendum gjaldeyrismarkaði. Evran kostar nú u.þ.b. 200 kr. á fyrrnefnda markaðinum en ríflega 172 kr. á þeim síðarnefnda.

Munurinn nemur 16% og hefur hann ekki verið minni frá því í upphafi árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að í millitíðinni hafa gjaldeyrishöft hérlendis hins vegar verið hert töluvert, sem að öðru jöfnu ætti að auka á einangrun þessara tveggja markaða hvors frá öðrum.

Aflandsmarkaður með krónur er afar ógagnsær þar sem viðskiptin fara í mörgum tilfellum fram beint á milli kaupanda og seljanda. Þá heldur enginn einn aðili utan um heildarumfang viðskipta eða uppruna kaup- og sölutilboða. Þó má tína til ýmsa áhrifaþætti sem kunna að skýra hina miklu styrkingu krónu á aflandsmarkaði undanfarinn mánuð.

Til að mynda er sá möguleiki fyrir hendi að hluti þeirra erlendu fjárfesta sem hafa fengið að skipta vaxtatekjum í krónum fyrir evrur á undanförnum mánuðum hafi kosið að fjárfesta að nýju í krónum. Þessir aðilar eiga þá viðskipti á aflandsmarkaði við aðra erlenda fjárfesta sem tilbúnir eru að selja krónueignir sínar á aflandsgenginu og njóta góðs af þeim gengismun sem er á milli markaðanna tveggja. Heildaráhrifin eru þau að gengi innanlands gefur eftir en á móti er þrýstingi á krónuna á aflandsmarkaði aflétt.

Einnig er hugsanlegt að erlendir aðilar hafi þurft að afla sér króna til að standa skil á greiðslum til innlendra lánveitenda eða eigenda skuldabréfa í krónum erlendis. Þetta kann til dæmis að eiga við um einhverja skuldunauta gömlu bankanna eða útgefendur krónubréfa á gjalddaga sem höfðu reitt sig á skiptasamninga við innlenda banka til að mæta þörf sinni fyrir krónur til að greiða eigendum bréfanna.

Ef krónukaup vegna krónubréfa eru verulegur þáttur í undanfarinni styrkingu gæti hún reynst skammgóður vermir, því líklegt er að endafjárfestarnir sem fá þær krónur í hendur muni selja þær aftur á aflandsmarkaði með tilheyrandi veikingu krónu á þeim markaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×