Viðskipti innlent

Sjóvá seld þegar lygnir á mörkuðum

„Við erum að vinna í því endurskipuleggja Sjóvá og uppfylla öll skilyrði um tryggingastarfsemi. Við reiknum með að skrifað verði undir fyrir lok næstu viku. Þegar aðstæður lagast seljum við tryggingafélagið í opnu söluferli,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að eigið fé Sjóvár væri neikvætt upp á tíu milljarða króna, svo sem vegna verðfalls á eignum sem Milestone, fyrri eigendur tryggingafélagsins, hafi sett inn í félagið í tengslum við kaup á sænska fjármála- og tryggingafélaginu Invik árið 2007.

Þar á meðal eru fasteignir í Evrópu og Asíu auk hluta- og skuldabréfa. Fasteignirnar hafa lengi verið í leigu, þar á meðal hjá opinberum stofnunum erlendis og stórfyrirtækjum.

Árni segir fasteignarekstur og tryggingastarfsemi Sjóvár verða aðskilin auk þess sem eignir verði teknar út úr rekstrinum í skiptum fyrir ríkisskuldabréf og aðrar traustar peningalegar kröfur. Árni, sem í gær var staddur í London í Bretlandi, gat í fljótu bragði ekki sagt til um hvað lækkun eignasafns Sjóvár væri mikil.

Sjóvá er eina tryggingafélagið sem ekki hefur skilað ársreikningi. Ljóst þykir að félagið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um gjaldþol svo það geti starfað sem tryggingafélag. Gjaldþol fyrirtækisins í hitteðfyrra, það er hlutfall af eigin fé, var 4,8 sinnum hærra en lágmarksgjaldþol. Þá nam laust fé rúmum 8,2 milljörðum króna. Það er nú nær þremur milljörðum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×