Viðskipti innlent

Vilhjálmur Þorsteinsson verður lykilhlutafi í Auði Capital

Vilhjálmur Þorsteinsson hefur bæst í hóp lykilhluthafa Auðar Capital. Mun hann taka sæti í stjórn félagsins að því er segir í tilkynningu um málið.

„Nálgun og hugmyndafræði Auðar höfðar til mín og hefur þegar sannað gildi sitt. Í farvatninu er hugarfarsbreyting í viðskipta- og fjármálalífi, sem Auður er í takti við. Félagið hefur skýr gildi og fyrirtækjamenningu sem ég trúi að skili árangri í breyttum heimi. Mikil tækifæri munu skapast fyrir fjármálafyrirtæki sem hefur traust og góða ímynd eins og Auður Capital", segir Vilhjálmur í tilkynningunni en hann hefur keypt tæplega 10% hlut í félaginu.

„Aðkoma Vilhjálms styrkir Auði enn frekar. Reynsla hans mun nýtast vel í þeim verkefnum sem framundan eru, meðal annars i BJARKAR sjóðnum þar sem Vilhjálmur mun vera virkur þátttakandi ", segir Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital. Vilhjálmur mun taka sæti í stjórn félagsins.

Vilhjálmur Þorsteinsson hefur starfað á sviði upplýsingatækni í aldarfjórðung og er í dag fjárfestir og stjórnarmaður í nokkrum fyrirtækjum, meðal annars CCP, Verne Holding, DataMarket, Gogogic og Gogoyoko.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×