Erlent

Bandaríkin biðja Þjóðverja um að taka við Guantanamo föngum

Eric Holder vill að vinaþjóðir Bandaríkjanna taki við 30 föngum. Mynd/ AFP.
Eric Holder vill að vinaþjóðir Bandaríkjanna taki við 30 föngum. Mynd/ AFP.
Bandarísk stjórnvöld hafa beðið þýsk stjórnvöld um að taka við föngum úr Guantanamo Bay fangabúðunum, samkvæmt upplýsingum frá talsmanni þýska innanríkisráðuneytisins. Talsmaðurinn sagði við AFP fréttastofuna að listi með nöfnum fanganna hefði borist ráðuneytinu. Það kemur svo í hlut ráðuneytisins að ákveða hvort fallist verður á beiðnina.

„Ég get staðfest að Bandaríkin hafa sent beiðni um að við tökum á móti föngum úr Guantanamo og við höfum fengið nöfn og aðrar upplýsingar um fangana," sagði talsmaðurinn. Gert er ráð fyrir að farið verði yfir listann í ráðuneytinu á morgun.

Fréttablaðið Der Spiegel segir að um sé að ræða 10 fanga, en talsmaður innanríkisráðuneytisins vill ekki staðfesta þá tölu. Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í heimsókn sinni til Berlín í síðustu viku að stjórnvöld væru með lista yfir 30 fanga sem vonast væri til að vinaþjóðir gætu tekið við. Þar á meðal væru fangar sem gætu ekki snúið til síns heima vegna þess að hætta væri á að þeir sættu ofsóknum þar.

Talsmaður þýska innanríkisráðuneytisins sagði að tekin yrði ákvörðun um hvern einstakling fyrir sig. Hafa þyrfti útlendingalög til hliðsjónar og huga að því hvort fangarnir væru hættulegir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×