Viðskipti innlent

Ríkissjóður sparar 700 milljónir í vaxtagreiðslur

Ef tekið er mið af ávöxtunarkröfu í útboði Seðlabankans á ríkisbréfum fyrir helgina má segja að ríkissjóður þurfi að greiða nær 700 milljónir kr. minna í árlegar vaxtagreiðslur næstu árin af skuldabréfunum sem seld voru á föstudag en raunin hefði orðið ef krafan hefði verið óbreytt frá aprílmánuði.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að óhætt sé að segja að viðtökur fjárfesta við útboði Seðlabankans á ríkisbréfum síðastliðinn föstudag hafi verið góðar. Óskað var eftir tilboðun í tvo flokka, RIKB 10 1210 og RIKB 13 0517 og bárust tilboð að fjárhæð 34 milljarðar kr. að nafnvirði, en tilboðum fyrir u.þ.b. 24,5 milljarða kr. var tekið.

Í fyrrnefnda flokkinn var tilboðum tekið fyrir 14,2 milljarða kr. að nafnvirði á 6,63% ávöxtunarkröfu en í þann síðarnefnda var tekið tilboðum fyrir 10,3 milljarða kr. að nafnvirði á 6,92% ávöxtunarkröfu.

Ekki liggur fyrir hvernig kaupendahópurinn skiptist en leiða má að því líkum að erlendir fjárfestar hafi verið talsvert atkvæðamiklir í styttri flokknum auk þess sem innlendir verðbréfasjóðir og viðskiptavinir eignastýringar fjármálafyrirtækja hafa trúlega verið fyrirferðamiklir í kaupendahópnum.

Ef niðurstaða útboðsins nú er borin saman við síðasta útboð sem haldið var fyrir rúmum mánuði síðan kemur í ljós að ávöxtunarkrafa í samþykktum tilboðum var 9,98% fyrir RIKB 10 1210 og 9,03% í tilfelli RIKB 13 0517. Ávöxtunarkrafa á markaði hefur lækkað mikið undanfarinn mánuð, sér í lagi í kjölfar allmyndarlegrar vaxtalækkunar Seðlabanka í maíbyrjun og ádráttar um að umtalsverð vaxtalækkun gæti verið í pípunum í júní.

Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs lækkaði því um þriðjung á milli mánaða í tilfelli fyrrnefndu bréfanna og um tæpan fjórðung á þeim síðarnefndu. Þannig má segja að ríkissjóður þurfi að greiða nær 700 milljónum kr. minna í árlegar vaxtagreiðslur næstu árin af skuldabréfunum sem seld voru á föstudag en raunin hefði orðið ef krafan hefði verið óbreytt frá aprílmánuði.

Munar um minna í þeirri þröngu stöðu sem ríkisfjármálin eru nú í. Þar sem verulegur hluti þessara vaxtagreiðslna rennur til útlendinga hefur þessi þróun einnig jákvæð áhrif á flæði á gjaldeyrismarkaði er frá líður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×