Viðskipti innlent

Raunlækkun íbúðaverðs í borginni 15% frá áramótum

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í júní frá fyrri mánuði samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú lækkað um 9,5% að nafnvirði og um 15% að raunvirði frá áramótum talið. Búast má við að íbúðaverð muni enn gefa eftir á næstu misserum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að frá því að hápunktinum var náð á íbúðamarkaði í byrjun síðasta árs hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 13% að nafnvirði og 32% að raunvirði en opinberar spár um þróun húsnæðisverðs á næstu misserum gera ráð fyrir að áður en yfirstandandi lægð muni ljúka á fasteignamarkaði árið 2011 muni raunverðslækkun íbúðaverðs nema hátt í 50% frá því að hápunktinum var náð. Samkvæmt því mati er enn umtalsverð lækkun húsnæðisverðs í pípunum.



Á sama tíma og íbúðaverð lækkar fer byggingarkostnaður hækkandi en samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar sem Hagstofan birti nú í morgun hækkar byggingarkostnaður um 1,8% í júlí frá fyrri mánuði. Á síðustu 12 mánuðum hefur byggingarkostnaður hækkað um 10,3% og íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur á sama tímabili lækkað um 10,8%.

Arðsemi í byggingu íbúða hefur því dregist umtalsvert saman á síðustu misserum en mikil arðsemi einkenndi þennan iðnað síðustu ár og átti ríkan þátt í þeim miklu fjárfestingum og framkvæmdum sem áttu sér stað í nýbyggingum íbúða.

Dregið hefur verulega úr byggingu íbúðarhúsnæðis undanfarið og eiga minnkandi arðsemi og samdráttur í eftirspurn auk gjörbreyttra aðstæðna varðandi fjármögnunarmöguleika stærstan þátt í þeirri þróun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×