Innlent

Hvalir gætu verið hættulegir

Þau nánu kynni sem tókust milli manna og steypireyðar á Ströndum á dögunum eru talin einstök hér við land. Hvalasérfræðingur við Hafrannsóknastofnun varar þó eindregið við því að menn reyni slíkt, enda geti stórhveli reynst stórhættuleg og hæglega sökkt smábátum.

Við sáum í fréttum í gær þegar tveir Strandamenn, feðgar, klifruðu upp á bak á lifandi steypireyði í Steingrímsfirði. Faðirinn, Magnús Kristjánsson, lýsti því einnig hvernig hann gat losað kaðal af sporðinum meðan hvalurinn lét hann óáreittan. Ekki er vitað til þess að menn hafi áður komist í svo náið samneyti við villt stórhveli hérlendis, að sögn Droplaugar Ólafsdóttur, hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknastofnuninni.

Hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu á Húsavík þekkja menn dæmi þess að kafarar hafi synt með með hnúfubak og steypireyði á Skjálfandaflóa, en vita ekki til þess að þar hafi menn farið á bak á hval. Mönnum er ráðlagt að varast slíkt, og segir Droplaug að þetta geti verið stórhættulegt enda sé steypireyður stærsta dýr jarðar.

Menn ættu einnig að geta varúðar þegar tóg er fest milli báts og hvals en fram kom í gær að hvalnum tókst að draga bátinn afturábak á sjö mílna hraða. Droplaug segir að hvalur geti hæglega dregið smábát á kaf.

Við Steingrímsfjörð töldu menn sig ná samskiptum við hvalinn. Droplaug segir félagsatferli frekar þekkt meðal tannhvala, höfrunga, háhyrninga og búrhvala, enda séu þeir hjarðdýr, - en fáar rannsóknir séu til um atferli skíðishvala.

Droplaug segir ekki hægt að útiloka að þarna hafi myndast einhver tengsl en telur þó að ekki ætti að leggja einhverja mannlega merkingu í atferli hvala, sérstaklega við aðstæður sem þessar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×