Viðskipti innlent

Færeyingar taka yfir Vörð tryggingar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á kynningu hjá Verði Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs, Janus Petersen, bankastjóri Føroya banka, Kjartan G. Gunnarsson, stjórnarformaður Varðar, Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans (NBI) og Guðmundur J. Jónsson, forstjóri Varðar, kynntu aðkomu færeyska bankans að tryggingafélaginu á blaðamannafundi í gær.
Á kynningu hjá Verði Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri Byrs, Janus Petersen, bankastjóri Føroya banka, Kjartan G. Gunnarsson, stjórnarformaður Varðar, Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans (NBI) og Guðmundur J. Jónsson, forstjóri Varðar, kynntu aðkomu færeyska bankans að tryggingafélaginu á blaðamannafundi í gær. Fréttablaðið/GVA
Føroya banki hefur eignast ráðandi hlut í tryggingafélaginu Verði. Skrifað var undir samninga þar að lútandi í gærmorgun.

Føroya banki hefur síðan í vor stefnt á að láta til sín taka á tryggingamarkaði hér, en viðræður um kaup á Verði hafa staðið frá því í sumar.

Að sögn Kjartans G. Gunnarssonar, stjórnarformanns Varðar, átti færeyski bankinn frumkvæði að viðræðunum. Ásmundur Stefánsson, bankastjóri Landsbankans (NBI), segir hins vegar að eigendur Varðar hafi verið „vel opnir“ fyrir því að fleiri kæmu að félaginu.

Samkvæmt samkomulaginu auka Føroya banki og núverandi hluthafar Varðar, SP-fjármögnun, sem áður átti 49 prósenta hlut, Landsbankinn (NBI) sem átti rúm 24 prósent og Byr sparisjóður sem átti tæp 25 prósent, hlutafé félagsins um 700 milljónir króna.





 „Með kaupum á hlutafé af núverandi hluthöfum fyrir 550 milljónir króna og 600 milljóna króna hlutafjáraukningu nemur fjárfesting Føroya banka samtals 1.150 milljónum króna. Eignast bankinn þannig 51 prósents hlut í Verði og verður félagið dótturfélag Føroya banka,“ segir í tilkynningu Varðar.

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits hér, í Danmörku og Færeyjum, auk Samkeppniseftirlitsins. Á kynningu Varðar í gær kom fram að með aðkomu Føroya banka uppfylli Vörður nú gjaldþolskröfur þær sem lagðar eru á tryggingafélög, en eftir kaupin nemur eigið fé Varðar um 1.300 milljónum króna.

Þá kom fram í máli Guðmundar J. Jónssonar, forstjóra Varðar, að hagnaður hafi verið á rekstrinum fyrstu níu mánuði ársins.

Við horfðum til fleiri félaga, en áttum ekki viðræður við aðra en Vörð,“ segir Janus Petersen, bankastjóri Føroya banka. Hann segir að bankinn einbeiti sér að tryggingarekstri hér, ekki séu uppi fyrirætlanir um almenna bankastarfsemi.

Þá segir Janus að Vörður hafi hentað bankanum best, bæði vegna stærðar og stöðu á markaði. „Félagið er jafnstórt Trygd, tryggingafélagi okkar í Færeyjum. Svo sjáum við líka hag í samstarfinu við aðra banka á Íslandi,“ segir hann.

Í kynningu sinni sagði Janus Petersen Føroya banka stefna á frekari útrás og vöxt á Norðurlöndum, en þar horfi bankinn helst til Íslands og Danmerkur. Føroya banki er næststærsta félag Kauphallarinnar hér og einn af 10 verðmætustu bönkum Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×