Erlent

Stríðið hófst með árás Georgíu

Óli Tynes skrifar
Rússar hertóku stór svæði í Georgíu.
Rússar hertóku stór svæði í Georgíu.

Rannsóknarnefnd sem Evrópusambandið skipaði til þess að rannsaka stríðið milli Georgíu og Rússlands á síðasta ári segir að báðir aðilar hafi gerst sekir um brot.

Í skýrslu nefndarinnar segir að árás Georgíu á aðskilnaðarhéraðið Suður-Ossetíu hafi verið brot á alþjóðalögum.

Rússar hafi haft rétt til þess að verja friðargæsluliða sína í Suður-Ossetíu. Hinsvegar hafi hernaðarviðbrögð Rússa verið langtum meiri en tilefni var til. Rússar hertóku stór svæði í Georgíu og héldu þeim í margar vikur.

Rannsóknarnefndin vísar á bug ásökunum um að Georgíumenn hafi gerst sekir um þjóðarmorð. Hinsvegar hafi allir deilendurnir þrír gerst sekir um mannréttindabrot.

Nefndin segir einnig að Suður-Ossetía hafi enga heimild í alþjóðlegum lögum til þess að kljúfa sig frá Geoorgíu. Það hafi Abkasía ekki heldur.

Rússar hafa viðurkennt aðskilnað héraðanna frá Georgíu og gert allt sem þeir hafa getað til þess að breikka gjána.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×