Fasteignalán á Bretlandi jukust um 23 prósent í júní, vonast er til að þessar fréttir hleypi jákvæðu lífi í fasteignamarkaðinn þar í landi. Veitt voru 45 þúsund lán í júní en slíkur fjöldi lána hefur ekki sést í ellefu mánuði. Til samanburðar voru veitt 36.500 lán í maí. The Times greinir frá þessu í dag.
Talið er að lágir vextir og tiltölulega raunhæft verð fasteigna, útskýri þessar óvæntu fréttir af fasteignalánamarkaðinum. Engu að síður er talið að einhver bið verði á því að eðlileg virkni komist á fasteignamarkaðinn.
Fasteignaverð hefur lækkað umtalsvert á Bretlandi undanfarið ár.
Í júní hafði fasteignaverð á Bretlandi lækkað um 10,7 prósent frá sama mánuði á síðasta ári en í maí mældist tólf mánaða lækkun fasteignaverðs 12,7 prósent.
Þykja tölurnar benda til að lækkun fasteignaverðs á Bretlandi sé á undanhaldi.
Töluverð aukning fasteignalána á Bretlandi
