Viðskipti innlent

Greining: Fjölmargt hvílir á samþykkt Icesave

Fjölmargir þættir í uppbyggingu efnahagslífisins hvíla á samþykkt Icesave samkomulagsins. Má þar nefna greiðslu á öðrum hluta láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og greiðslu lána frá hinum Norðurlöndunum ásamt láni frá Póllandi. Einnig hvílir fyrsti áfangi í afnámi gjaldeyrishafta á þessari samþykkt sem og lánshæfi íslenskra ríkisins.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þá hafi samþykktin í för með sér auknar líkur á vaxtalækkun að hálfu Seðlabankans og að stöðugleikasáttmáli aðila vinnumarkaðarins og íslenskra stjórnvalda haldi.

Verði það sem líkur virðast vera á nú, að frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave verði samþykkt af Alþingi, mun yfirstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taka fyrir fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda.

Fyrsta endurskoðunin og annar hluti lánsins hefur dregist umtalsvert en upprunalega var hún á dagskrá í febrúar á þessu ári. Dráttur í endurskipulagningu bankanna, Icesave deilan, Alþingiskosningar og breytingar á ríkisstjórn, tafir á framlagningu langtímaáætlunar í ríkisfjármálum o.fl. mál hafa valdið töfum. Með Icesave samningnum og samþykkt ríkisábyrgðar vegna hans á Alþingi eru öll mál í höfn fyrir endurskoðunina.

Fyrirhugað er að nýta lán AGS til að styrkja gjaldeyrisfroða Seðlabankans. Til viðbótar við lán AGS koma lán frá hinum Norðurlöndunum og Póllandi. Lán þessara aðila eru háð samþykkt AGS á öðrum hluta láns síns til Íslands. Þannig hvíla þau lán einnig á lausn Icesave-deilunnar og munu þessi lönd væntanlega greiða út u.þ.b. 470 milljónir evra þegar endurskoðun AGS er í höfn.



Með samþykkt Icesave samkomulagsins er líklegt að ráðist verði í fyrsta áfanga í afnámi gjaldeyrishafta, en í þeim áfanga á að létta höftum af innstreymi erlendrar fjárfestingar. Fyrsta skrefið í þeim áfanga sem er áformað 1. nóvember n.k. og verða þá afnumin höft á nýfjárfestingar sem fela í sér innstreymi erlends gjaldeyris.

Líkt og segir í nýlegri greinargerð Seðlabankans um afleiðingar þess að ekki náist sátt í Icesave-deilunni í bráð og að endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og íslenskra stjórnvalda tefjist vegna þess er að líklega mun lánshæfismat Íslands verða lækkað ef slík staða kemur upp. Eitt stóru matsfyrirtækjanna, Fitch Ratings, tekur raunar einnig fram í mánaðargamalli skýrslu að þessi geti orðið raunin.

Í áðurnefndri greinargerð Seðlabankans um Icesave segir að forsenda þess að vextir Seðlabankans lækki án þess að tefla stöðugleika krónunnar í tvísýnu er að traust á krónuna aukist. Bankinn segir að verulegar tafir á því að Icesave-samkomulagið náist gætu leitt til þessa að ógerlegt verði fyrir bankann að halda vaxtalækkunarferlinu áfram og í versta falli að hann þurfi að hækka vexti til að verja gengi krónunnar. Með samkomulaginu nú eru því auknar líkur á því að bankinn muni halda vaxtalækkunarferli sínu áfram á næstunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×