Viðskipti innlent

Greining: Vextir lækkaðir í pólitískum sýndarleik

Greining Nýja kaupþings gerir ráð fyrir að innlánsvöxtum verði haldið óbreyttum í 9,5% á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans á morgun en innlánsvextirnir eru aðal stýritæki Seðlabankans um þessar mundir. Hinsvegar gerir greiningin ráð fyrir að stýrivextir verði lækkaðir um 0,5 til 1,0 prósentustig í „hálfgerðum pólitískum sýndarleik", en stýrivextir skipta mun minna máli fyrir vaxtaaðhaldið en innlánsvextir um þessar mundir.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinar. Þar segir að greiningin telur hinsvegar að Peningastefnunefnd hefji afar varfærið innlánsvaxtalækkunarferli á fyrsta ársfjórðungi 2010 með 25 punkta lækkun.

Seðlabankastjóri hefur ásamt forsætis- og fjármálaráðherra undirritað yfirlýsingu þess efnis að vaxtastig verði jafnvel hækkað ef þörf krefur. Í því ljósi, segir greiningin, virðist afar ólíklegt að innlánsvextir verði lækkaðir að einhverju marki á næstu mánuðum. Í fylgiskjali með fyrrgreindri yfirlýsingu segir meðal annars:

Markmið peningastefnunnar verður áfram að halda krónunni stöðugri. "Viðeigandi vaxtastig" er mikilvægt fyrir stöðugleika krónunnar. Stjórnvöld og Seðlabanki eru reiðubúin fyrir vaxtahækkanir ef nauðsyn krefur. Horft fram á veginn má gera ráð fyrir gengisstyrkingu og söfnun gjaldeyrisforða, sem mun skapa rúm fyrir hægfara lækkun vaxta og afléttingu gjaldeyrishafta.

Í ágúst síðastliðnum, viku áður en nýr Seðlabankastjóri tók við, var stefna Seðlabankans skýr, ekki yrði slakað á peningalegu aðhaldi fyrr en krónan hefði styrkst. Þessi stefna var múruð inn í sjálfa fyrirsögnina á yfirlýsingu Peningastefnunefndar. Meira að segja hafði verið ýjað að vaxtahækkunum í yfirlýsingu nefndarinnar í júlí.

Það vakti því athygli að á næsta vaxtaákvörðunarfundi á eftir, þ.e. í september, lagði nýr seðlabankastjóri til vaxtalækkun þótt gengi krónu hefði veikst frá næsta fundi á undan. (Hækkunin var þó felld í Peningastefnunefnd). Þetta var því hæglega hægt að túlka sem stefnubreytingu miðað við fyrirheitin sem fram komu í fyrrnefndri yfirlýsingu Peningastefnunefndar.

Á hinn bóginn má þó benda á að Seðlabankastjóri hugsaði lækkunina til að koma til móts við aukið peningalegt aðhald sem fólst í ákvörðun um útgáfu innstæðubréfa, þannig að heildaráhrif aðgerðanna tveggja yrðu u.þ.b. hlutlaus. Þannig væri mögulegt að halda því fram að tillaga nýs seðlabankastjóra væri nokkurn veginn í samræmi við þá stefnu sem ríkti áður en hann tók við embætti.

„Hvað sem því líður þá teljum við að markmið um stöðugleika gjaldmiðilsins og söfnun gjaldeyrisforða verði ær og kýr peningastefnunnar enn um sinn og slökun á peningalegu aðhaldi verði takmörkuð á meðan það varir," segir í Markaðspunktunum.

„Áframhaldandi vaxtaaðhald í námunda við tíu prósentin er þó gríðarlega þétt miðað við niðursveifluna í hagkerfinu. Í því sambandi má minna á að nær öll önnur V-Evrópulönd hafa gripið til þess ráðs að lækka vexti að núlli til þess að örva hagvöxt og rétta við fjármálakerfið. Raunvaxtaaðhaldið verður þó örlítið minna en ella til skamms tíma í ljósi þess hve verðbólga verður þrálát á næstu mánuðum, sem ræðst m.a. af hækkunum hins opinbera á sköttum og gjöldum."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×