Viðskipti innlent

Íslendingar nota nú kort meira erlendis en útlendir hérlendis

Dregið hefur umtalsvert úr úttektum erlendra debet- og kreditkorta hérlendis síðan sú úttekt náði hámarki í tæplega 8,7 milljörðum kr. í toppi ferðamannastraumsins í ágúst síðastliðinn. Í október nam þessi úttekt 3,3 milljörðum kr.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að í ágúst voru úttektir á erlend kort hér á landi 3,8 milljörðum kr meiri en úttektir á innlend kort erlendis. Nú hefur þetta snúist við og var úttektin á erlendu kortunum hér á landi 1,9 milljörðum kr. minni en úttektir á innlend kort erlendis í október.

Segir þetta talsvert til um þá árstíðarsveiflu sem er í hreinum gjaldeyrisstraumum til og frá landinu vegna ferðamennsku og í leiðinni þann árstíðarbundna þrýsting sem kann að myndast á gengi krónunnar að þeim sökum innan þess haftafyrirkomulags sem nú er við lýði á gjaldeyrismarkaði.

Sem hlutfall af heildarkreditkortaveltu þá hefur erlend kreditkortavelta verið að vaxa undanfarna mánuði. Var hlutfall þetta 19% núna í október og hefur ekki verið hærra síðan í júní 2008. Lægst fór þetta hlutfall í 11% í janúar síðastliðnum. Er þetta áhugavert í ljósi þess að krónan var ríflega 9% veikari í október síðastliðnum en í janúar.

Ástæðan kann hins vegar að vera sú að gengisáhrif lækkunar krónunnar á síðasta ári eru nú að stórum hluta komin fram í innlendu verðlagi sem hefur jafnað þann verðmun sem í janúar hafði skapast á erlendum varningi í innlendum búðum og erlendum.

Því tímabundna ástandi sem var í kjölfar gengishrunsins þegar erlendar vörur voru hér nánast á útsölu sökum þess hvað stutt var frá gengishruninu og lagerar voru hér á gömlu gengi virðist nú vera að ljúka. Afleiðingin er sú að kortavelta er að færast út fyrir landsteinana aftur.



Greiningin segir að sterk fylgni sé milli raunbreytinga á kreditkortaveltu að viðbættri innlendri debetkortaveltu annars vegar, og einkaneyslu hins vegar. Samdráttur kortaveltu þannig mælt var tæplega 14% að raungildi á síðustu þrem mánuðum að meðaltali miðað við sama tíma í fyrra. Er það minnsti samdráttur milli ára á þriggja mánaða tímabili frá ágúst-október í fyrra.

Bendir þetta til þess að samdráttur einkaneyslu kunni sömuleiðis að vera að minnka. Einföld spájafna gefur þannig til kynna að einkaneyslan hafi dregist saman um 13-15% á umræddu tímabili, en á fyrri helmingi ársins nam samdrátturinn á milli ára 20% að meðaltali.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×