Erlent

Bandaríkin krefjast framsals á Polanski

Óli Tynes skrifar

Bandaríkin hafa sent formlega kröfu til Sviss um að fá leikstjórann Roman Polanski framseldan.

Polanski var handtekinn í síðasta mánuði þegar hann kom til Sviss til að vera viðstaddur kvikmyndahátíð þar sem átti að heiðra hann fyrir ævistarf hans.

Hann flúði frá Bandaríkjunum árið 1977 meðan hann beið dóms fyrir að hafa gefið þrettán ára telpu dóp og margnauðgað henni.

Síðan hefur Polanski búið í Frakklandi og er franskur ríkisborgari.

Þótt alþjóðleg handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum árið 1978 hefur hann flakkað óáreittur vítt og breitt um heiminn.

Hann hefur meðal annars margsinnis komið til Sviss þar sem hann á veglegan skíðaskála.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×