Viðskipti innlent

Krónan styrkist um 1,2 prósent - en veltan agnarsmá

Krónan hefur styrkst um tæp 1,2 prósent það sem af er dags en gengisvísitalan fór til skamms tíma í 197 stig. Tekjur af utanríkisviðskiptum og kaup Seðlabankans á krónum skýrir styrkinguna síðustu daga, samkvæmt upplýsingum frá gjaldeyrisborði Kaupþings.

Ekki liggja mikil viðskipti á bak við styrkinguna enda velta á gjaldeyrismarkaði margfalt minni á við það sem var fyrir fall bankanna í október.

Veltan nú hefur numið um þrjú hundruð milljónum króna að meðaltali í mánuðinum auk þess sem Seðlabankinn hefur keypt krónur fyrir um hundrað milljónir á dag upp á síðkastið.

Fyrir fall bankanna í október í fyrra var velta á gjaldeyrismarkaði á bilinu 30 til 40 milljarðar króna á dag.

Samkvæmt gengi krónu kostar einn Bandaríkjadalur nú 114,5 krónur, ein evra 149,5 krónur, eitt pund 162,7 krónur og danska krónan 20 íslenskar.

Gengi krónunnar hefur ekki verið sterkara gagnvart helstu viðskiptamyntum síðan snemma í desember í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×