Viðskipti innlent

FME sektar Bakkabræður

Bræðurnir Ágúst og Lýður.
Bræðurnir Ágúst og Lýður.
Fjármálaeftirlitið hefur sektað Bakkabræður um fimm milljónir króna vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti.

8. desember 2008 náði félagið BBR ehf. yfirráðum í Exista hf. þegar félagið skráði sig fyrir 50 milljörðum nýrra hluta í Exista. Í kjölfarið fór BBR með 77,9% atkvæða og Bakkabraedur Holding B.V. fór með 10%, en félögin eru bæði í eigu Ágústs Guðmundssonar og Lýðs Guðmundssonar. Með þessu fóru félögin því samtals með 87,9% atkvæða í Exista.

Á vef FME segir að BBR hafi við þetta verið tilboðsskylt. Félaginu bar samkvæmt lögum að gera öðrum hluthöfum Exista yfirtökutilboð eigi síðar en fjórum vikum eftir að yfirráðum var náð. BBR bar því að leggja fram yfirtökutilboð eigi síðar en 5. janúar 2009. Samkvæmt auglýsingu um yfirtökutilboð til hluthafa í Exista sem birt var í Fréttablaðinu þann 5. janúar 2009 og fyrstu drögum að tilboðsyfirliti var ljóst að yfirtökutilboð BBR átti ekki að taka gildi fyrr en 9. janúar 2009.

„Það var mat Fjármálaeftirlitsins að háttsemi BBR ehf. hefði farið í bága við 1. mgr. 100. gr. vvl. þar sem að öðrum hluthöfum Exista hf. hefði ekki verið gert yfirtökutilboð innan lögbundins tímafrests og að málinu bæri að ljúka með stjórnvaldssekt. Við ákvörðun fjárhæðar stjórnvaldssektar var litið til alvarleika brots, tímalengdar og þeirrar fjárhæðar sem um var að ræða. Með hliðsjón af framangreindu þótti hæfilegt að gera BBR ehf. stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 5.000.000,-," segir á vef FME.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×