Viðskipti innlent

Greining: Vinnudeilur með verkföllum eru ólíklegar

Ef niðurstaðan verður sú að framlengja ekki kjarasamningum í vikunni tekur við kjarasamningaferli sem gæti orðið langt. Baráttuvilji fyrir að sækja umtalsverðar launahækkanir við þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífinu er hins vegar eflaust lítill. Vinnudeilur með verkföllum og viðeigandi kostnaði fyrir þá sem í þeim standa eru ólíklegar við þessar aðstæður.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ljóst er hins vegar að geta aðila vinnumarkaðarins til að taka á sig kostnaðarhækkanir nú er ólík eftir því hvar fyrirtækin standa en útflutningsgreinarnar uppskera nú ávinning af lágri krónu á meðan þær sem þjónusta innlendan markað eru að takast á við mikinn samdrátt í eftirspurn.

Hugsanlegt er að þessi ólíka staða geti leitt til einhvers klofnings í röðum atvinnurekenda ef til erfiðra kjaradeilna kemur. Of snemmt er hins vegar að spá fyrir um það nú.

Á morgun mun verða tekin ákvörðun um hvort kjarasamningar á vinnumarkaði verði framlengdir. Vinna við framlengingu samninganna hefur verið í fullum gangi að hálfu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í samstarfi við stjórnvöld. Ljóst er að margt af því sem rætt var um að gera í stöðugleikasáttmálanum frá því í sumar er enn ógert. Eru það fyrst og fremst mál sem snúa að stjórnvöldum og Seðlabankanum. Má þar nefna afnám gjaldeyrishafta, lækkun vaxta, stóriðjufjárfestingar og skattamál.

Ljóst er að miklu skiptir friður á vinnumarkaði. Bæði fyrirtæki og heimili eru í erfiðri stöðu þar sem verðbólga, gengislækkun, aukið atvinnuleysi, kaupmáttarlækkun, samdráttur í eftirspurn og eignaverðslækkun síðustu missera hefur bæði aukið þörfina fyrir kjarabætur og á sama tíma skert getu fyrirtækja til að taka á sig aukinn kostnað. Fyrir liggja umtalsverðar breytingar í ríkisfjármálum með skattahækkunum og niðurskurði sem leggjast þungt bæði á fyrirtæki og heimili, og endurspeglar deilan nú að hluta ólíkar áherslur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í þeim efnum.

Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum áttu stjórnvöld að greiða götu þeirra stóriðjuframkvæmda sem þegar hafa verið ákveðnar og hraða undirbúningsvinnu vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum á borð við gagnaver og kísilflöguframleiðslu. Áform stjórnvalda um nýja orkuskatta standa þversum fyrir þeim sem ætla að fjárfesta á Íslandi og gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni um þennan hluta samningsins. Ekki liðkar fyrir úrskurður umhverfisráðherra um Suðvesturlínur sem litið er á af mörgum sem skýrt brot á stöðugleikasáttmálanum.

Hófstilltar launahækkanir við þessar aðstæður er mikilvæg forsenda þess að ekki fari af stað víxlverkun launa, verðlags og gengis sem Íslendingar þekkja of vel að er ekki leiðin til hagsbóta fyrir neinn. Verkföll og óeirðir á vinnumarkaði til viðbótar við þau miklu efnahagslegu vandamál sem við er að glíma er heldur ekki leiðin framávið.

Það er hins vegar skiljanlegt að biðlund aðila vinnumarkaðarins sé nær á þrotum enda hefur dregist verulega að á sviði stjórnvalda sé leyst úr stórum úrlausnarmálum. Nú virðist hins vegar að sjá til lands í nokkrum af þessum málum með lausn Icesave-deilunnar, en í framhaldi hennar verður eflaust ráðist í fyrsta áfanga afnáms gjaldeyrishafta og lækkun vaxta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×