Viðskipti innlent

Fjórðungur heimila skuldar fimmfaldar árstekjur

Fjórðungur heimila landsins er með skuldir yfir fimmföldum árlegum ráðstöfunartekjum. Liðlega helmingur heimila er með húsnæðisskuldir sem nema minna en þreföldum árlegum ráðstöfunartekjum.

Ef reiknað er með 5% raunvöxtum af 30 ára verðtryggðu jafngreiðsluláni er greiðslubyrði húsnæðisskuld sem nemur 500% af ráðstöfunartekjum 30% ráðstöfunartekna en það er í grennd við þau hættumörk sem jafnan er miðað við fyrir greiðslubyrði íbúðalána.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki 2009 sem Seðlabankinn hefur birt. Þar segir að hjá helmingi heimila með bílalán nema bílaskuldir innan við 50% árlegra ráðstöfunartekna. Fjórðungur þeirra skuldar meira en nemur árstekjum sem er umtalsvert í ljósi stutts líftíma slíkra lána.

Þegar litið er til heildarskulda heimila í gagnagrunninum, en þar eru námslánaskuldir ekki innifaldar, er um helmingur heimila með skuldir sem nema meira en þreföldum ársráðstöfunartekjum.

Í Fjármálastöðugleika 2008 var lýst áhyggjum af því að pörum sem skulduðu meira en 300% af tekjum hefði fjölgað skv. Upplýsingum úr skattframtölum fyrir árið 2006. Um fjórðungur para skulduðu svo mikið, en 5% skulduðu meira en 600% af ráðstöfunartekjum. Því mætti ætla að hlutfall heimila sem skulda umfram 300% af ráðstöfunartekjum hafi tvöfaldast á þremur árum og hlutfall skuldsettustu heimilanna sem skulda umfram 600% af tekjum hafi fjórfaldast.

Hér verður þó að hafa í huga að skuldlaus heimili eru ekki meðtalin í gagnagrunni Seðlabankans nema þau hafi lánað öðrum heimilum veð og gögn um ráðstöfunartekjur eru ekki fyllilega sambærileg. Engu að síður er ljóst að verulega skuldsettum heimilum hefur fjölgað ört.

Við mat á áhættu sem lánakerfinu stafar af þessari þróun er gagnlegt að skoða hversu stór hluti heildarskulda skuldir hinna skuldsettustu eru. Skuldir heimila sem skulda umfram 300% af ráðstöfunartekjum eru 73% heildarskulda og skuldir heimila sem skulda meira en nemur sexföldum ársráðstöfunartekjum eru með 39% skuldanna.

Heimili með mikinn húsnæðisauð eru með tiltölulega hátt hlutfall heildarskuldanna hér á landi. Tæplega þriðjungur heimila eiga húsnæði sem er meira en 30 milljóna kr. virði skv. fasteignamati, en sá hópur heimila skuldar tæplega helming húsnæðisskulda. Tæplega 68% heimila eiga húsnæði sem er minna en 30 milljóna kr. virði skv. fasteignamati en þau skulda rúmlega helming húsnæðisskuldanna.

Greiðslubyrði heimila hefur aukist ört vegna gengislækkunar krónunnar, aukinnar verðbólgu og lækkunarráðstöfunartekna. Algengt viðmið er að greiðslubyrði íbúðalána sé viðráðanleg ef hún er minni en 30-35% af ráðstöfunartekjum.4 Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Seðlabankans, sem miðast við greiðslubyrði og tekjur snemma árs, þurftu 26% heimila að verja yfir 30% ráðstöfunartekna sinna í greiðslur íbúðalána og 20% heimila yfir 35% tekna sinna.

Svipað hlutfall heimila, eða 23%, var með samanlagða greiðslubyrði íbúða-, bíla og yfirdráttarlána yfir 40% af ráðstöfunartekjum sem algengt er að miða við sem hættumörk fyrir heildargreiðslubyrði.

Greiðslubyrði heimila með gengistryggð íbúðalán hefur þyngst mest eins og áður segir. Upplýsingar úr gagnagrunni Seðlabankans gefa til kynna að greiðslubyrði a.m.k. 35-40% heimila sem eru með gengistryggð íbúðalán að hluta eða öllu leyti sé yfir viðmiðunarmörkum, en hlutfallið gæti verið hærra.

Seðlabankinn er að afla upplýsinga meðal viðskiptabanka og eignaleigufyrirtækja um vanskil og notkun greiðsluerfiðleikaúrræða. Upplýsingaöflunin stendur enn yfir en fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að greitt sé með eðlilegum og óbreyttum hætti af u.þ.b. 85-90% af heildarfasteignaveðlánum í krónum, 5% þessara lána séu í greiðslujöfnun og um 7% í frystingu.

Rétt er að minna á að u.þ.b. 87% fasteignaveðlána voru í krónum miðað við eftirstöðvar íbúðalána í lok síðasta árs. Því er ljóst að greitt er með eðlilegum og óbreyttum hætti af meginþorra allra íbúðalána. Vísbendingar eru um að u.þ.b. 9% heildaríbúðalána í krónum séu í vanskilum, þar af 6% í alvarlegum vanskilum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×