Viðskipti innlent

Þjóðarbúið skuldar 524 milljarða umfram eignir

Erlend staða þjóðarbúsins að frádregnum eignum og skuldum innlánsstofnana í slitameðferð var neikvæð um 524 milljarða kr. í lok þriðja ársfjórðungs, þar af voru eignir 2.612 milljarðar kr. og skuldir 3.137 milljarðar kr.

Þetta kemur fram á vef Seðlabanka Íslands þar sem birt hefur verið bráðabirgðayfirlit um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2009 og um stöðu þjóðarbúsins í lok fjórðungsins.

Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 36 milljarða kr. á þriðja ársfjórðungi sem er rétt um 29 milljarða kr. betra en á fjórðungum á undan. Rúmlega 16 milljarða kr. afgangur var á vöruskiptum við útlönd og 20,8 milljarða kr. afgangur var á þjónustuviðskiptum. Jöfnuður þáttatekna var hinsvegar neikvæður um 73 milljarða kr.

Halla á þáttatekjum á þriðja ársfjórðungi má eins og áður að langmestu leyti rekja til innlánsstofnana í slitameðferð, en um er að ræða reiknaða áfallna vexti sem mynda ekki raunverulegt greiðsluflæði frá landinu.

Reiknuð gjöld vegna innlánsstofnana í slitameðferð námu 51 milljarða kr. og tekjur 24,6 milljarða kr. og eru því neikvæð áhrif á þáttatekjujöfnuð vegna þeirra um 26,5 milljarða kr.

Þáttatekjujöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var því neikvæður um 46,5 milljarða kr. og viðskiptajöfnuður neikvæður um 9,5 milljarða kr. Vaxtagjöld hluthafalána hafa einnig mikil neikvæð áhrif á þáttatekjujöfnuðinn en þau hafa aukist jafnt og þétt síðastliðin tvö ár.

Erlendar eignir námu 8.930 milljarða kr. í lok ársfjórð­ungsins en skuldir 14.669 milljarða kr. Hrein staða við útlönd var því neikvæð um 5.739 milljarða kr. og lækka nettó skuldir því um tæpa 90 milljarða kr. á milli ársfjórðunga. Í tölum um erlendar skuldir eru meðtaldar eignir og skuldir innlánsstofnana í slitameðferð.

Gerð hefur verið breyting á framsetningu eigna og skulda þeirra í yfirliti um erlendar skuldir og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Teljast þær ekki lengur með innlánsstofnunum heldur eru settar fram í nýjum lið sem nefnast "Innlánsstofnanir í slitameðferð" sem er undirliður liðarins "Aðrir geirar". Tímaröðin fyrir þennan nýja lið hefst á fjórða ársfjórðungi 2008. Einungis bankar og sparisjóðir sem eru starfandi sem innlánsstofnanir eru nú flokkaðir undir samnefndum lið frá sama tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×